Loksins kominn úr karakter

Ásdís Ásgeirsdóttir

Villi Neto hefur undanfarnar vikur verið í karakter vegna þáttanna Hver drap Friðrik Dór sem eru nú komnir í sýningu hjá Sjónvarpi Símans. Villi mætti í Síðdegisþáttinn til þeirra Loga Bergmanns og Sigga Gunnars og ræddi þar við þá um þættina og hvernig það væri að vera í karakter svona lengi.

„Veistu, það er bara vel þreytandi. Ég áttaði mig ekki á því hvað það tæki mikla andlega orku úr manni einhvern veginn. Ég var búin að lesa um þetta með Silvíu Nótt og svona en maður var bara, nei er þetta ekki bara gaman. En svo þegar það er komið að því að standa að þessu til lengdar þá tekur það virkilega á,“ viðurkennir Villi.

Skjáskot/Sjónvarp Símans

Fanga vel samfélagsmiðlastemninguna

Þættirnir eru flóknir og ólíkir því sjónvarpsefni sem áður hefur verið gert hér á Íslandi.

„Þetta er dálítið framsækið, þetta er ekki oft gert á Íslandi svona „mockumentary“-stíll og sérstaklega ekki þar sem einhver kemur fram undir sínu eigin nafni sko, mér finnst það náttúrlega mjög súrt,“ segir Villi og hlær.

Þættirnir fanga vel stemninguna á því hvað samfélagsmiðlar leika stórt hlutverk í lífi fólks í dag en tökur á myndinni hófust í október árið 2019. Ferlið hefur því verið langt og verkefnið stórt.

„Það er svolítið kvíðavaldandi að hugsa til þess hvað myndi gerast ef maður lenti í svona atviki hvað varðar samfélagsmiðla, þetta er náttúrlega ótrúlegt,“ segir Villi og bætir því við að sem betur fer hafi Snark séð um að hafa tímalínuna planaða enda hefði hann aldrei náð að fylgja þessu öllu sjálfur eftir. Villi segir viðbrögðin við þáttunum aðallega hafa verið góð og að fólk sé yfirhöfuð mjög ánægt.

Viðtalið við Villa má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

 

mbl.is