FLOTT vekur athygli á stelpum í tónlist

Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveitin FLOTT gaf út sína fyrstu smáskífu í nóvember síðastliðnum undir nafninu Segðu það bara.

Hljómsveitina skipa fimm kraftmiklar stelpur, þær Ragnhildur, Sylvía, Sólrún Mjöll, Eyrún og Vigdís. Stelpurnar semja allt, framleiða, vinna lögin og spila á hljóðfærin. Þær gáfu út lagið …en það væri ekki ég í síðustu viku þar sem þær fengu söngkonuna Matthildi til liðs við sig og útkoman er þrusuflott!

Ég spjallaði aðeins við þessa snillinga og fékk þær til þess að segja mér örlítið frá hljómsveitinni.

Vigdís, sem syngur og semur textana og lögin, fékk á síðasta ári hugmynd um að stofna stelpuband sem myndi semja heiðarlegt stelpupopp. Hún hafði samband við kunningjakonu sína Ragnhildi, sem semur lög, pródúserar og spilar á hljómborð, þar sem Vigdís vissi af því að Ragnhildur hafði verið að semja tónlist og að hún væri búin með skapandi tónlistarmiðlun í LHÍ.

Lagið Segðu það bara: 

Í upphafi var Vigdís tilbúin að byrja með gjörningaband sem semdi bara lög um stráka og samskipti en svo þótti henni Ragnhildur svo ótrúlega hæfileikarík að tónlistin varð að einhverju alvörudæmi sem þær sáu mikla möguleika í.

Út frá því fóru þær í að finna hæfa hljóðfæraleikara sem pössuðu inn í bandið og þannig myndaðist stelpubandið FLOTT.

Allar stelpurnar hafa mikinn tónlistarbakgrunn og hafa verið að læra tónlist frá því þær voru litlar. Þær langar mikið til þess að vekja athygli á stelpum í tónlist, ekki bara söngkonum heldur einnig höfundum, hljóðfæraleikurum og framleiðendum.

Þetta er þrusuflottur hópur af flottum fyrirmyndum og ég hlakka mikið til að fylgjast með hljómsveitinni FLOTT á komandi tímum!

mbl.is