Andlega heilsan varð betri eftir Covid

Andleg heilsa Margrétar varð betri eftir Covid.
Andleg heilsa Margrétar varð betri eftir Covid. Ljósmynd: Samsett

Margrét Gauja Magnúsdóttir smitaðist af Covid í mars á síðasta ári og fagnar hún því árs afmæli á næstu vikum. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Margréti í Síðdegisþættinum og fengu að heyra hvernig undanfarið ár hefði verið hjá henni. Margrét segist hafa það nokkuð gott í dag en viðurkennir að síðasta sumar og haust hafi verið mjög erfiður tími.

„Síðasta sumar var alveg „disaster“ einhvern veginn og fram á haust, en ég er búin að vera í góðum bata. Ég skal nú samt alveg viðurkenna það að það eru þættir enn þá að angra mig því miður en ekki eins harkalega og áður og sjaldnar,“ segir Margrét.

Ekki venjuleg flensa

Margrét var ein af þeim fyrstu sem ræddu það opinberlega að Covid væri ekki venjuleg flensa sem fólk kæmist yfir á tveimur vikum. Sjálf fór hún að finna fyrir fyrstu einkennum 21. mars og fékk staðfest smit hinn 26. mars fyrir ári.

„Ég er í sjúkraþjálfun tvisvar í viku og er alveg enn þá í mikilli sjálfsvinnu með þetta. Það er talið núna að við séum svona 10-20% þeirra sem sýkjast af Covid sem upplifum þetta langa Covid, „long Covid“ eins og þetta er kallað, og það er náttúrlega bara mjög mismunandi eftir fólki hvernig það birtist. Ég fékk aldrei Covid í lungun þannig að ég hef alveg sloppið við það en þessi svona truflaða þreyta, hausverkur og riða, það hefur verið minn fylgifiskur,“ viðurkennir Margrét.

Fjölskyldan upplifði jákvæðar breytingar á andlegri heilsu

Andlega segist Margrét sjaldan hafa haft það jafn gott. Hún hafi ekki upplifað kvíða eða hjartsláttartruflanir í kjölfar veikindanna, sem er algengt meðal þeirra sem smitast hafa. Hún segir fjölskyldu sína hafa tekið eftir jákvæðum breytingum á andlegri hlið hennar eftir að hún smitaðist og segir hún það líklega tengjast því hvað hún þurfti mikið að slaka á.

„Nú eigið þið eftir að halda að ég sé geðveik en vitið það að ég held ég hafi sjaldan haft það jafn gott andlega,“ segir hún og bætir við: „Maður þarf líka að taka það jákvæða út úr þessu. Horfast í augu við það að vírusinn sló mig harkalega niður en þegar maður missir svona heilsuna fer maður líka bara að endurskoða margt og ég get alveg viðurkennt það að þangað til ég smitast af Covid er ég bara búin að lifa í heilsuhroka. Ég hef aldrei lent í neinu þannig séð, ég hef aldrei misst heilsuna áður.“

Þurfti að læra að forgangsraða öllu upp á nýtt

Margrét segist hafa lært að meta heilsuna upp á nýtt eftir veikindin en segir að líklega læri fólk ekki að meta hana nema hafa verið í svipuðum sporum.

„Til að læra að meta heilsuna þarftu að fara að forgangsraða öllu upp á nýtt í þínu lífi. Þú þarft bara að fara að skoða allt. Við erum líka búin að vera að læra það að vakna á morgnana og hugsa: „Okei, ég er með 100 orkubolta til að lifa út daginn, hvernig ætla ég að nota þá? Hvernig ætla ég að skipta þeim?“ Og maður hefur þurft að henda út eða setja út annað í sínu lífi sem eru tilgangslausar orkusugur sem maður hefur leyft sér að hafa hangandi utan á sér. Svo er maður líka að átta sig á því að maður er ekkert endilega búinn að koma neitt rosalega vel fram við sig. Maður er búinn að vera að djúsa og reykja og í allt of miklu álagi og allt of miklu stressi með slæmt mataræði, slæman svefn. Maður hefur bara alltaf komist upp með það. Maður klessti bara á veggi af og til og lagði sig og svaf í þrjá daga og svo er maður bara mættur aftur,“ segir hún.

Viðtalið við Margréti Gauju má nálgast í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist