Stórtónleikar Skunk Anansie færðir til nóvember

Hljómsveitin Skunk Anansie.
Hljómsveitin Skunk Anansie. Ljósmynd/Aðsend

Brit-rokksveitin Skunk Anansie hefur beðið eftir rétta tækifærinu til að heimsækja Ísland aftur, en sveitin mun halda tónleika í Laugardalshöll í tilefni af 25 ára afmælisári sínu.

Í ljósi þeirrar óvissu sem Covid-19 hefur valdið og þar á meðal tónleikahaldi og vegna samkomutakmarkana, sem þó eru að rýmkast, hefur verið tekin sú ákvörðun að færa tónleika Skunk Anansie, sem vera áttu 5. júní. Ný dagsetning er laugardagurinn 6. nóvember. 

Miðar gilda sjálfkrafa áfram á nýrri dagsetningu

„Við hjá TWE live sem stöndum að tónleikunum værum ótrúlega þakklát ef miðaeigendur væru til í að halda miðum sínum á nýrri dagsetningu og styðja þannig við viðburðahald á Íslandi, sem hefur átt undir högg að sækja síðustu mánuði. Miðarnir þínir gilda sjálfkrafa áfram á nýrri dagsetningu og þú þarft ekkert að aðhafast frekar,“ segir í fréttatilkynningu frá TWE live. 

Samkvæmt fréttatilkynningunni geta miðaeigendur óskað eftir endurgreiðslu henti ný dagsetning þeim ekki með því að senda tölvupóst á info@tix.is innan 14 daga frá og með deginum í dag, það er í síðasta lagi miðvikudaginn 10. mars 2021.

Athugið að ef greitt var með greiðsluappi (Aur, Kass eða Síminn Pay) eða með ferðagjöf stjórnvalda þarf að senda reikningsupplýsingar með.

TWE live segir að salan á tónleikana hafi gengið vel þrátt fyrir þessa skrítnu tíma og að stúkan sé að verða uppseld. Miðasala fer fram á Tix.is: Tvö verðsvæði eru í boði: Stæði: 9.990 kr. (fremst við svið) og stúka: 13.990 kr. (númeruð sæti, stúka). Athugið að 18 ára aldurstakmark er á tónleikana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

#taktubetrimyndir