Karlakór syngur vögguvísur fyrir væran svefn

Breskur karlakór frá Bristol syngur í gegnum Zoom.
Breskur karlakór frá Bristol syngur í gegnum Zoom. Skjáskot/YouTube

Margir þekkja það að eiga erfitt með að sofna og oft getur verið gott að hlusta á væra tóna til þess að ná góðri slökun.

Breskur karlakór í Bristol hefur séð til þess að tvær litlar stelpur í Bandaríkjunum nái góðum nætursvefni með því að syngja fyrir þær vögguvísur úr 5.600 kílómetra fjarlægð.

Faðir stelpnanna er tónlistarkennari að nafni Rick og rakst hann á myndband af karlakórnum syngja lagið Sea Shanty síðastliðið sumar. Hann spilaði útgáfuna fyrir dætur sínar og urðu þær strax miklir aðdáendur kórsins.

Þegar yngri dóttir hans, hin fimm ára gamla Roslyn, fór að eiga erfitt með svefn og dreyma illa hafði Rick samband við karlana í kórnum til þess að athuga hvort þeir gætu hjálpað til með því magnaða afli sem tónlist býr yfir. Kórstjórinn Sam Burns brást strax við og samdi sérstaka vögguvísu fyrir Roslyn sem hann fékk svo allan kórinn sinn til þess að syngja í gegnum samskiptaforritið Zoom.

Að sögn föður hennar sefur Roslyn betur núna og þykir rosalega vænt um þessa sérsniðnu vögguvísu. Karlarnir í kórnum segja enn fremur að þeim hafi þótt mikill heiður að eiga aðdáendur sem kunna að meta söngraddir þeirra og að þetta hafi verið upplífgandi verkefni fyrir þá. Svo krúttlegt.

Frétt frá: Goodnewsnetwork.

mbl.is