Vistvænt leikfangaforrit

Skjáskot/YoungPlanet

Tilveran er síbreytileg og börn eru stöðugt að þróast og þroskast á meðan þau vaxa úr grasi. Því getur verið erfitt að halda sig við sömu leikföng lengi þar sem áhugamál breytast og nýtt tekur við af gömlu.

Leikfangaforritið YoungPlanet í Bretlandi sérhæfir sig í leikfangaskiptum þar sem börn geta skipt á eigin leikföngum fyrir ný og notuð frá öðrum börnum. Enn fremur geta þau gefið leikföng sem þau nota ekki lengur.

Forritið var stofnað síðasta sumar og sló í síðastliðinni viku persónulegt met þar sem því var hlaðið niður 25 þúsund sinnum yfir vikuna. Hingað til hefur það hjálpað 8.500 leikföngum að finna nýtt heimili og því bjargað þeim frá ruslahaugunum.

Markmið YoungPlanet er að hjálpa fjölskyldum að verða vistvænni ásamt því að auðvelda fjölskyldum í fjárhagsörðugleikum að eignast leikföng fyrir börnin. Frábært forrit og það væri skemmtilegt að sjá íslenska útgáfu af þessu sniðuga framtaki.

mbl.is

#taktubetrimyndir