Hótar Piers og fjölskyldu hans lífláti

Ljósmynd/NICHOLAS KAMM

Stjörnufréttir Evu Ruzu:

Það er víst ekki tekið út með sældinni að lifa í heimi hinna frægu. Piers Morgan lenti í þeirri ljótu upplifun að fá morðhótun í gegnum Instagram sonar síns, og ekki nóg með að þessi illa innrætti aðili hafi hótað Piers, heldur hótaði hann einnig syni hans og eiginkonu lífláti.

Þessi Instagram-notandi sagði: „Það er sama hvers mikið þú eflir öryggisgæsluna í kringum þig, ég mun ná til þín. Þú skalt ekki halda að þetta sé innantóm hótun, Piers, því ég mun leita þig uppi og drepa.“

Ég fæ gæsahúð niður bakið, get svo svarið það. Piers fór beint til lögreglunnar, hafði samband við toppana hjá Facebook (sem eiga Instagram líka) og tóku þeir málið alvarlega.

Instagram-notandinn hefur eytt aðgangi sínum, en Piers vill vita hvort hægt sé að leita viðkomandi uppi þrátt fyrir það. Hann ræddi þetta hrikalega mál í morgunþætti sínum í Bretlandi, „Good morning Britain“, og sagði að auðvitað mætti fólk hafa skoðanir á þeim sem eru í sviðsljósinu, en enginn eigi að geta hótað öðrum lífláti án þess að það hafi afleiðingar.

Stefnir Piers á að gera þetta að tímamótamáli sem mun vonandi reynast öðrum vel í framtíðinni sem lenda í því sama.

Frétt frá: The Sun.

mbl.is