„Fórum út sem jafnöldrur og hún kom heim árinu eldri“

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir hóf göngu á nýrri þáttaröð af Leitinni að upprunanum á Stöð 2 síðasta sunnudag. Í þessari þáttaröð kemur Sigrún til með að ræða við fólk sem hefur nú þegar verið til umfjöllunar í þáttunum og fær að sjá hvernig samskiptin ganga við blóðforeldrana. Sigrún ræddi við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum á K100.

„Já þetta er svona pínu Covid þáttaröð af Leitinni að upprunanum. Það var ekki í boði að fara til útlanda eins og alþjóð veit. Þetta er í alvöru búin að vera hugmynd í svolítinn tíma að hitta sem sagt þá sem að hafa verið í þættinum fram að þessu og spyrja tíðinda, heyra hvernig gengur og allt það. Þetta er náttúrulega ekki búið þótt að þátturinn sé búinn,“ segir Sigrún.

Ræða við fólk sem fór sjálft út í kjölfar þáttanna

Þá segist Sigrún einnig vera með nýjar sögur af fólki sem sat heima í sófa og fylgdist með þáttunum og ákvað að láta þá verða sér hvatning til þess að fara að leita sjálft.

„Margir meira að segja notuðu aðferðina úr þáttunum og það er eitthvað sem hafði aldrei hvarflað að mér eða ég var ekki búin að hugsa út í það. En svo fæ ég reglulega þannig pósta frá fólki sem að rennur blóðið til skyldunnar og lætur mig samviskusamlega vita að það hafi farið,“ útskýrir hún.

Þáttunum fylgir gjarnan mikil dramatík enda oft um meiriháttar mál að ræða.

„Það eru alltaf svakalegar sögur á bak við og eins og ég hef marg oft sagt, ég gæti ekki skáldað þetta þótt ég reyndi. Ég var einmitt spurð að því í gær hvort að þessi yrði eins hvort að fólk þyrfti að vera með alla vasaklúta klára og ef það segir einhverjum eitthvað að þá sat ég einmitt yfir klippitölvunni í gær og var svona pínu vandræðaleg á gólfinu, aðeins ástand á minni, en ég er reyndar ólétt svona mér til varnar svo það er kannski ekki að marka,“ segir hún og hlær.

Ferðin til Tyrklands eftirminnilegust

Sigrún segir ferðina til Tyrklands vera þá eftirminnilegustu en það var fyrsta ferðin sem þau lögðu af stað í og rosalega margt sem kom upp á.

„ Við erum einmitt að fara að hitta hana aftur hana Kolbrúnu og það var rosaleg saga. Alltaf þegar maður hélt að maður gæti ekki orðið meira hissa að þá kom eitthvað nýtt tvist bara; „Þú ert ári eldri en þú heldur.“ Við fórum út sem jafnöldrur og hún kom heim árinu eldri og í dag á hún tvo afmælisdaga,“ segir Sigrún.

Viðtalið við Sigrúnu má nálgast í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist