Betra að fara ósátt að sofa en að rífast í rökleysi

Dr. Erla Björns­dótt­ir.
Dr. Erla Björns­dótt­ir. mbl.is/Árni Sæberg

Dr. Erla Björnsdóttir sérfræðingur í svefni sem er að fara að halda ráðstefnu í Hörpu í nóvember, þar sem höfundur bókarinnar Why We Slepp kemur meðal annars fram ræddi við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars um svefn og mikilvægi hans í Síðdegisþættinum. Í viðtalinu viðurkennir hún að hún fái reglulega spurningar út í svefninn á förnum vegi.

„Jú vissulega og eins og þið komið inn á þá tengjum við öll við þetta, við þurfum öll að sofa og flestir hafa einhvern tíman lent í því að sofa ekki vel þannig að þetta er oft uppspretta að góðum samtölum,“ segir hún.

Mikilvægt að fá sjö til níu klukkutíma svefn á hverri nóttu

Erla segir mikilvægt að fullorðnir fái um sjö til níu klukkutíma svefn á hverri nóttu.  

„Svo er margt sem að hefur áhrif á svefngæðin sjálf þannig að ef við erum ekki að fá til dæmis góðan djúpsvefn þá erum við ekki að fá sérstaklega mikla endurnæringu út úr svefninum og það getur til dæmis verið bara koffín neysla, streita, sykur áfengi, ofþyngd eða hrotur. Þó að þú getir fengið þér koffín og sofnað að þá er koffínið samt að hafa áhrif á svefngæðin og í raun og veru mælum við ekki með koffíni eftir tvö á daginn því það er svo lengi að fara úr líkamanum,“ segir hún.

Deyjandi mýta að fólk þurfi lítinn svefn

Aðspurð segir Erla það sem betur fer vera deyjandi mýtu að fólk þurfi aðeins lítinn svefn en í langan tíma hefur fólk átt það til að monta sig á því að þurfa jafnvel bara að sofa í þrjá til fjórar klukkustundir að nóttu til.

„Þetta hefur stundum verið tengt svona við einhverja hetjudáð, dugnað og atorku að sofa lítið. En þetta er sem betur fer deyjandi mýta það er mjög hættulegt að sofa of lítið að staðaldri og ef þú ert bara að sofa í fjóra til fimm tíma þá ertu bara að stytta líf þitt og hafa áhrif á ýmsa sjúkdóma og fleira,“ segir hún.

Erla segir mikla vitundarvakningu hafa orðið gagnvart svefni undanfarin ár.

„Ef við hugsum bara um þessar þrjár grunnstoðir heilsu, hreyfing, næring og svefn þá hefur hreyfingin og næringin verið inni mjög lengi en svefninn hefur bara gleymst og við kannski áttum okkur ekki alveg á því hversu rosalega miklu máli hann skiptir og hann hefur áhrif á allt í okkar lífi. Hvernig líkamlegu formi við erum í, hvernig okkur gengur í vinnunni, hvernig okkur líður, hvernig við tökumst á við sjúkdóma og flensur þannig að það er bara eiginlega allt sem spilar þarna inn í,“ segir hún.

Betra að fara ósátt að sofa heldur en að rífast í rökleysi

Erla segir fólk gjarnan eiga það til að fara að hugsa út í verkefni morgundagsins þegar það leggist á koddann og þá geti áhyggjur haldið fyrir fólki vöku. 

„Þá er bara rökhugsunin okkar farin að sofa og við erum ekkert sérstaklega fær í að vera að glíma við erfiðar hugsanir á þessum tímapunkti. Til dæmis þetta með að hjón mega aldrei fara ósátt að sofa ég er ekki sammála því ég held að stundum sé ágætt að sofa bara á hlutunum í staðin fyrir að vera að rífast í einhverju rökleysi þarna hálfa nóttina,“ segir hún. 

Viðtalið við Dr. Erlu Björnsdóttur má nálgast í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:   

 

mbl.is