Manúela leitar að drottningum

Manúela Ósk Harðardóttir.
Manúela Ósk Harðardóttir. Instagram

Manúela Ósk Harðardóttir er þegar byrjuð að leita að nýjum keppendum í Miss Universe Iceland-keppnina sem haldin verður næsta haust. Það var hún Elísabet Hulda Snorradóttir sem bar sigur úr býtum á síðasta ári og fer hún út að keppa í aðalkeppninni hinn 16. maí næstkomandi.

„Við fengum það staðfest í gær að stóra keppni Miss Universe verður 16. maí, hún verður í Bandaríkjunum og það er það eina sem við erum búin að fá staðfest,“ segir Manúela Ósk í viðtali við Helgarútgáfuna á K100 sem er alla laugardaga frá 09 til 12.

„Ég veit ekki hvernig þeir ætla að koma, ég meina nú eru landamæri Bandaríkjanna lokuð er það ekki? Þannig að ég veit ekkert hvernig þeir ætla að finna út úr því, en það er bara svo gott út af því að það er búin að vera svo mikil óvissa, skiljanlega, með þetta allt saman að það er gott að fá staðfesta dagsetningu og hafa eitthvað að stefna að. Nú höfum við þrjá mánuði og þá er hún að fara út, það er bara ótrúlega mikilvægt,“ segir hún.  

Álíka stórt og Eurovision

Aðspurð segir Manúela að aðalkeppni Miss Universe sé álíka stór viðburður og Eurovision.

„Ég man ekki hvað það eru margir sem horfa um allan heim en þetta er alveg „huge“ viðburður bara eins og Eurovision. Við höfum ekki verið í sjónvarpi eftir að ég kom með Miss Universe til Íslands en við höfum verið í „live“ streymi á Vísi og það er að fá rosalega gott áhorf þannig að það er mikill áhugi fyrir þessu,“ segir hún.

Nú er búið að opna fyrir skráningar í næstu keppni sem haldin verður í haust og er opið fyrir þátttöku út mars.

„Þá byrjar svona viðtalsferli og svo veljum við hópinn einhvern tímann eftir páska og svo byrjar þetta í sumar og þetta verður allt sumarið og keppnin væntanlega í haust aftur, það er ekki komin nein dagsetning, maður þorir auðvitað ekki að plana neitt of langt,“ segir hún.

Viðtalið við Manúelu er hægt að hluta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is