110 ára söngkona slær í gegn á TikTok

Amy Hawkins ásamt langömmubarni sínu.
Amy Hawkins ásamt langömmubarni sínu. Ljósmynd/Hannah Freeman

Amy Hawkins er 110 ára gömul kona búsett í Bretlandi. Sem ung stúlka elskaði Hawkins ekkert meira en að syngja og dansa og langaði hana mikið til þess að verða skemmtikraftur.

Hún var á góðri leið með að láta drauminn rætast þegar hún var á leið í ferðalag um landið með danshóp sem átti að koma víða fram. Móðir hennar stoppaði það hins vegar af þar sem henni fannst þetta ekki viðeigandi starf fyrir virðulega unga dömu og því miður fór svo að Hawkins varð eftir heima.

Heilli öld síðar býr Hawkins í Suður-Wales og hefur aldrei hætt að syngja. Þrátt fyrir að hafa lifað tímana tvenna er röddin ennþá gullfalleg og að sögn fjölskyldu hennar er hún alltaf til í að syngja fyrir þau og vill helst ekki hætta þegar hún er byrjuð.

Á 110 ára afmælisdegi hennar tók langömmubarnið hennar, Sacha, myndband af henni að syngja eitt af sínum uppáhaldslögum, It's a Long Way to Tipperary, frá fyrri heimsstyrjöld.

Sacha deildi síðan myndbandinu á samskiptaforritinu tiktok. Hann grunaði þó ekki að það myndi slá í gegn og fá yfir 100 þúsund áhorf á örfáum dögum ásamt mörgum athugasemdum þar sem fólk var djúpt snortið yfir þessari hæfileikaríku langömmu.

Sumir draumar eru lengur að rætast en aðrir en loksins hefur draumur Amy Hawkins ræst um að skemmta fjölda fólks. Hana grunaði örugglega ekki að það yrði í gegnum snjallsíma þegar hún var ung, en svona er lífið óútreiknanlegt og spennandi. Hún er í skýjunum yfir þessu og heldur áfram að syngja og dreifa gleðinni.

Frétt frá: Goodnewsnetwork.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist