Styður við heimilislausa með hjálp tannálfsins

Hin 5 ára gamla Amaya Thompson.
Hin 5 ára gamla Amaya Thompson. Ljósmynd/Samantha Field

Hin fimm ára gamla Amaya Thompson, búsett í Bretlandi, missti á dögunum tvær barnatennur í einu og fékk 50 punda seðil frá tannálfinum fyrir. Henni fannst hún ansi heppin að fá svona mikinn pening og í staðinn fyrir að kaupa eitthvað fyrir sjálfa sig vildi hún nýta hann í mikilvægt málefni.

Þessi gjafmilda unga stúlka hafði fylgst með fréttum og því sem var í gangi í samfélaginu og fylltist innblæstri við að sjá fólk standa saman og styðja við bakið á þeim sem höfðu það erfiðara en aðrir. Hún spurði því móður sína hvort þær gætu ekki nýtt þennan pening til að styðja við heimilislausa, þar sem margt smátt getur gert eitt stórt.

Mæðgurnar útbjuggu 20 gjafapoka sem Amaya vildi kalla umhyggjupoka. Þær fylltu þá af nokkrum nauðsynjavörum ásamt bréfi og teikningu frá Amayu. Í bréfið skrifaði hún meðal annars að hún vonaðist til þess að pokinn kæmi að góðum notum og fengi viðtakendur til þess að brosa og líða vel. Hún sagðist enn fremur vita hvað hún væri ótrúlega heppin því hana vantaði ekki neitt og gæti því ekki hugsað sér að eyða peningnum í sjálfa sig.

Mæðgurnar settu sig í samband við góðgerðarsamtök sem hjálpuðu þeim að dreifa pokunum til réttra aðila. Í kjölfarið settu þær upp styrktarreikning til þess að geta útbúið fleiri poka og á tveimur sólarhringum tókst þeim að safna 1.165 dollurum, eða um 150 þúsund íslenskum krónum.

Góðmennska og umhyggja eru svo sannarlega kraftmikil öfl sem smita út frá sér og ná til ótrúlega breiðs hóps af fólki á öllum aldri. Fallegt framtak og það verður spennandi að fylgjast með góðverkum Amayu í framtíðinni!

Frétt frá: Tanksgoodnews.

mbl.is

#taktubetrimyndir