Gerir upp fortíðina í nýrri plötu

Hörður Torfason gerir upp fortíðina í plötunni Dropar.
Hörður Torfason gerir upp fortíðina í plötunni Dropar. Morgunblaðið/Ernir

Hörður Torfason, sviðslistamaður, söngvaskáld og mannréttindabaráttumaður, safnar fyrir útgáfu á nýrri plötu á Karolina Fund. Platan ber nafnið Dropar og verður hún gefin út í 250 eintökum seinni hlutann í mars. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Herði í Síðdegisþættinum en í ár verða 50 ár liðin síðan hann gaf út sína fyrstu plötu.

Á plötunni verður að finna tólf söngva sem Hörður flytur einn með gítar en flestir þeirra voru teknir upp þann 1. júlí árið 2010.

„Ég fór í stúdíóið og ætlaði að taka upp, ég vinn þetta oft þannig að ég fer með gítar og bara inn í stúdíó og hamra kannski tuttugu þrjátíu söngva inn og vel svo úr þeim. Þetta var í fyrra sumar og þá sagði Villi: „Þú átt nokkrar upptökur hérna, þú gerðir þetta 2010 þá tókstu inn sautján söngva með gítarnum.“ Við fórum að skoða þetta og þetta var bara gaman að gefa út svona einrödd og gítar svona alveg söngvaskáldið í hreinleika sínum,“ segir Hörður.

Fór gegn skelfilegum tíðaranda

Hörður segist aldrei hafa verið að dúlla sér mikið við upptökur eða að eiga við þær eftir á. Hann gengur inn, tekur eina töku og búið.

„Ég hef svo sem leyft mér að prufa það en það er ekki mín aðferð, mín aðferð er þetta, einfaldleikinn,“ segir hann.

Hörður útskrifaðist árið 1970 úr Þjóðleikhúsinu. Strax eftir útskrift fer hann að klífa upp í útvarpi, bíómyndum, gaf út plötur og var með sjónvarpsþætti. Þrátt fyrir það mætti hann miklu mótlæti.

„Ég mætti svo miklu af niðurlægjandi athugasemdum og bara ógeði að ég fór bara gegn þessum tíðaranda, hann var skelfilegur. Ég hef alltaf verið baráttumaður en ef þið skoðið það árið 1975 þegar ég er fyrsti Íslendingurinn sem viðurkenni glæpinn að ég er hommi að það felldi hver einasti Íslendingur mig. Þá fór ég hérna í kringum landið áratugum saman og ég ræddi aldrei samkynhneigð eða baráttumál ég söng um manneskjuna, bara fjölbreytileikann sem leikari og leikstjóri,“ segir hann.

Plötuna segir Hörður vera endapunkt uppgjörs sem hann hefur verið í við fortíð sína.

Viðtalið við Hörð má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist