Mikilvægt að gera sér grein fyrir áhrifum samfélagsmiðla

Ljósmynd/Unsplash/dole777

Elfa Ýr Gylfadóttir, fjölmiðlafræðingur og framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, mætti í viðtal í morgunþáttinn Ísland vaknar þar sem hún ræddi við þau um samfélagsmiðla og hvernig þeir stjórna því sem fólk sér.

„Ég var með smá erindi á netinu núna ekkert alls fyrir löngu þar sem ég var einmitt að tala um þetta viðskiptamódel samfélagsmiðlanna,“ segir Elfa Ýr og útskýrir að út af því að samfélagsmiðlarnir séu einkareknir geti þeir í raun gert svolítið það sem þeim sýnist.

Við erum markaðsvaran þeirra

„Þeir markaðssetja sig gagnvart okkur, að þeir séu þessi vettvangur samfélagslegrar umræðu á meðan þeir eru svona kannski fyrst og fremst, þeirra viðskiptamódel gengur út á það að safna upplýsingum um okkur og selja þær upplýsingar auglýsendum þannig að auglýsingarnar verði svona klæðskerasaumaðar og við gerum okkur ekkert endilega grein fyrir því heldur hvaða upplýsingum er verið að safna um okkur og hversu gríðarlega miklum upplýsingum,“ segir hún.

Elfa segir gott að heimildarmyndir á borð við Social Dilemma séu gefnar út vegna þess að fólk verður þá meðvitaðra um það að það sé vara þessara samfélagsmiðla og hverju sé verið að safna og af hverju.

„Það var mjög algengt að fólk sagði: „Það skiptir engu máli hvað er sagt um mig, ég hef ekkert að fela.“ En þegar þú ert komin með eins og Facebook sem er með 2,7 milljarða manna og ef við skoðum eina þjónustu sem þeir eru með sem heitir FB learner flow að þá sjá þeir til dæmis ef viðskiptavinur ætlar að fara að skipta úr einu merki í annað og hvernig hann hagar sér áður en það gerist. Þú ætlar kannski að fara að kaupa þér annan bíl og ætlar að fara að skipta um merki þá geta þeir farið í rauninni og selt auglýsendum aðgang að þessum aðila og viðkomandi gerir sér ekkert endilega grein fyrir því að það sé verið að herja á hann þarna,“ segir hún.

Elfa segir samfélagsmiðlana nýta sér staðsetningarforrit, leit á Google, hvað fólki líkar við og fleira til þess að útbúa ákveðið mynstur sem það nýtir svo í að klæðskerasauma auglýsingarnar.

Viðtalið við Elfu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:   

mbl.is