Víðir Reynisson er í búningi í dag

Víðir Reynisson er í búningi alla daga.
Víðir Reynisson er í búningi alla daga. Ásdís Ásgeirsdóttir

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel um nýja breytingu á sóttvarnareglum er varða flug til landsins og um það hvað börnin mega gera í dag á öskudaginn.

Nýja breytingin sem tekur gildi á föstudaginn segir að enginn geti komið til landsins nema sýna fram á sérstakt próf sem þarf að vera tiltölulega nýtt.

„Það eru nú flest lönd í Evrópu komin með þetta, við vorum að bæta þessu við og þetta tekur gildi á föstudaginn hjá okkur. Þetta er þannig að menn fara þá í svona Covid-próf, þetta er kallað PCR-próf sem margir þekkja þar sem er tekið sýni úr nefi og koki og úr því þarf að koma neikvæð niðurstaða. Þetta próf má vera þriggja daga gamalt þegar þú ætlar að leggja af stað til Íslands og þú þarft að framvísa því áður en þú ferð um borð í flugvélina erlendis og síðan sýna það líka þegar þú kemur til landsins,“ útskýrir Víðir.

Minnkar líkurnar á því að veiran berist til landsins

Nú þegar eru yfir tuttugu lönd komin með þetta próf sem skilyrði fyrir ferðalögum á milli landa og herðir þetta öryggi hér á landi og minnkar líkurnar á því að fólk beri veiruna inn til landsins.

„Það eru allir sem eiga að fara í þetta próf en ef þú ert íslenskur ríkisborgari og lendir í þeim aðstæðum að komast ekki í svona próf erlendis þá er þér ekki meinaður aðgangur til landsins. En það er gott að hafa það í huga að þetta er orðið skilyrði nánast alls staðar fyrir ferðalög. Ef fólk ætlar til dæmis að fara í gegnum Danmörku og heim þarf að vera með svona próf sem er 24 klukkustunda gamalt,“ segir Víðir.

Hann segir að fólk með vottorð þess efnis að það hafi þegar fengið Covid fái undanþágu. Öruggast sé að vera með vottorðin útprentuð en ekki rafræn enda geti fólk lent í vandræðum með þau. Sóttvarnalæknir hefur þó hvatt alla til þess að vera heima en ekki að ferðast.

Alltaf í búningi

Spurður hvort hann sé í búningi í dag svarar Víðir: „Ég er alltaf í búningi en kannski ekki grímubúningi.“

Víðir segir mikilvægt að allir gæti að sóttvörnum í dag sem og alla daga og þá sérstaklega þeir sem ætla sér að taka á móti syngjandi furðuverum í heimahús.

„Ef fólk gætir sóttvarnaráðstafanna held ég að þetta sé miklu skynsamlegra heldur en að vera að þvælast á milli fyrirtækja. Það er að segja halda sig heima í hverfunum og labba á milli. Við höfum séð þetta á nokkrum stöðum þar sem skólarnir eru búnir að setja upp eitthvert svona kerfi að vera með rautt hjarta úti í glugga eða miða út í glugga þar sem söngvarar eru velkomnir þannig að krakkarnir geta komið en það þarf auðvitað bara að gæta að sóttvörnum þegar menn eru að fara með sælgæti á milli. Þannig að þeir sem eru að gefa sælgæti séu þá búnir að passa sig að það sé sprittað og í umbúðum. Ekki allir að káfa í sama hlauppokanum,“ segir hann.

Íslendingar í hnotskurn

Víðir segir Íslendinga sérstaklega góða í því að aðlagast erfiðum og krefjandi aðstæðum og segir öskudaginn gott dæmi þess.

„Sjáiði aðlögunarhæfnina sem við erum búin að sýna á þessu ári. Við erum búin að breyta öllu hjá okkur og núna erum við með það sem við köllum öðruvísi öskudag og sama hvað gerist þá komum við með einhverjar lausnir, við komum með hugmyndir, þetta eru Íslendingar í hnotskurn. Við erum ekkert að hengja okkur í vandamálum við bara sjáum þetta sem áskoranir, finnum lausnirnar og komum með nýjungar,“ segir hann.

Viðtalið við Víði má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir