Á ekki að birta kynþokkafullar myndir sem fyrirmynd

Skjáskot/Instagram hjá Eddu Falak

Crossfitstjarnan og áhrifa­vald­ur­inn Edda Falak mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar þar sem hún ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel um þær gagnrýnisraddir sem fóru af stað eftir að hún birti kynþokkafulla mynd af sér á Instagram. Í kjölfar gagnrýninnar sem Edda fékk á sig setti hún af stað byltingu á Instagram þar sem hún hvatti fólk til þess að vera óhrædd við að deila myndum af sjálfu sér.

„Í fyrsta lagi langar mig náttúrlega að allir hafi sjálfstraust til að gera það sem þeir vilja og skammast sín ekki fyrir sinn eigin líka. Þetta er bara þinn líkami. Svo fer þetta aðeins dýpra út í klámvæðinguna og allt það, segjum að það leki einhver mynd af þér á nærfötunum og að einhver hafi það „against you“, hafi eitthvert vald yfir líkama þínum. Í rauninni er þetta ekkert sem þú átt að skammast þín fyrir og markmiðið er líka bara svolítið að taka þennan druslustimpil sem er í gangi,“ útskýrir Edda.

View this post on Instagram

A post shared by EDDA FALAK (@eddafalak)

Ætti ekki að birta kynþokkafullar myndir af því að hún er fyrirmynd

Edda segist bæði hafa fengið ógrynni af skilaboðum frá konum og körlum eftir umræðuna sem hún tók á Instagram. Meðal þeirrar gagnrýni sem Edda fékk á sig var að hún ætti ekki að birta svona myndir vegna þess að hún væri fyrirmynd.

„Þetta byrjaði náttúrlega þannig að ég póstaði einhvern tímann myndbandi af mér þar sem ég var að æfa í íþróttatopp og þar fékk ég einhver komment um að ég ætti að hylja mig meira og þetta væri óviðeignandi og að það væri fólk þarna í „gymminu“ sem myndi sjá þetta og eitthvað svoleiðis,“ segir Edda sem viðurkennir að hún hafi verið í uppreisn gagnvart gagnrýninni frá árinu 2016.

Þegar umrætt myndband var birt var Edda að æfa úti í Danmörku í þrjátíu stiga hita. Allir karlmennirnir á æfingunni hafi verið berir að ofan en aðeins var sett út á hana vegna þess að hún var í íþróttatopp.

View this post on Instagram

A post shared by EDDA FALAK (@eddafalak)

„Þetta snýst líka um sjálfstraust. Það er gaman að sjá konur sem loksins hafa sjálfstraust í að elska líkama sinn og eru stoltar af honum og hafa sjálfstraustið í að sýna öðrum hvernig sem þú lítur út, það er svo „empowering“ líka,“ segir hún.

Edda segir umræðuna snúast um það frelsi að fólk fái að vera og gera það sem það vill. Sama hvort fólk sé í sambandi, mæður, framkvæmdastjórar eða hvað sem er.

Viðtalið við Eddu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is

#taktubetrimyndir