Gúggluðu hvort annað fyrir fyrsta stefnumótið

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir og Bubbi Mortens „googluðu“ hvort annað fyrir fyrsta …
Hrafnhildur Hafsteinsdóttir og Bubbi Mortens „googluðu“ hvort annað fyrir fyrsta stefnumótið. mbl.is/Golli

Það vita líklega flestir að Bubbi Morthens og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir festu kaup á fallegu einbýlishúsi á Seltjarnarnesinu eftir að hafa búið í Kjós í meira en áratug. Í viðtali í morgunþættinum Ísland vaknar greinir Bubbi meðal annars frá því að ástæðan fyrir flutningunum séu börnin. Þá ræddi Bubbi líka um ástina í viðtalinu en hann hélt á dögunum sérstaka Valentínusartónleika í beinu streymi.

„Það eru börnin. Ísabella er orðin afrekskona í fimleikum, landsliðsstelpa og það þýðir bara að ég er að keyra að jafnaði 100 kílómetra á dag,“ segir Bubbi um ástæðu flutnings fjölskyldunnar.

Líffræðilegt geðveikisástand að vera ástfangin

Bubbi byrjaði tónlistarferil sinn á miklu rokki er hann spilaði og söng fyrir hljómsveitirnar Egó og Utangarðsmenn. Í dag á Bubbi orðið flestar af ástarlagaperlum þjóðarinnar sem margir Íslendinga hlusta á og spila. Á Valentínusardag hélt Bubbi tónleika þar sem hann fjallaði um ástina í öllum sínum myndum.

„Já ég hugsaði er ekki hægt að gera eitthvað sem er kannski íslenskt á þessum degi, Valentínusardeginum, og allt í einu uppgötvaði ég að ég á lög um ástina í öllum myndum,“ segir hann og bætir við: „Að vera ástfanginn, það er búið að rannsaka það að það er líffræðilegt geðveikisástand.“

Mikill sársauki á tónleikum eftir skilnaðinn

Jón Axel, einn af þáttastjórnendum Ísland vaknar, segist þá hafa upplifað sársauka í ástinni með Bubba á tónleikum sem hann hélt á sínum tíma í Þjóðleikhúsinu.

„Já, það var rosalega erfitt, ég spila Fallegur dagur og ég spila Ástin getur aldrei orðið gömul frétt og ég spila stundum Breiðstræti ástarinnar en ég á rosalega erfitt enn í dag, ég var að hlusta á þetta um daginn af því að ég var að leita, hvort ég ætti að taka einhver lög og ég bara „sunkaðist“ niður og ég hugsaði bara: Hrollur, ég get ekki hlustað á þetta, hrollur, hvað var ég að pæla? En þetta bjargaði lífi mínu. Þessar plötur björguðu lífi mínu, það var auðvitað alveg rosalegt, þetta var mjög erfitt og þetta var „töff“ tímabil og ég man að ég var með tónleika í Austurbæjarbíói fjórum dögum eftir að ég skildi og ég man hvernig ég horfði í spegilinn og horfði framan í mig og sagði: „Þú veist ok kall, allt í burtu, tónleikar.“ Ég fór upp og tók þessa tónleika og ég man að ég var í frjálsu falli allan tímann. Ég hugsaði komdu þessu frá þér og gerðu þetta eins og maður. En ég gerði þetta svolítið á rútínunni og tónleikarnir í Þjóðleikhúsinu, það var það sama. Þetta var alveg mjög mjög mjög erfitt en þannig er einmitt ástin. Hún er allra handa. Vegna þess að ástarsorg er, þú ert einhvern veginn í þessari stöðu að vera ástfanginn en á leiðinni til helvítis,“ segir Bubbi er hann minnist þessara erfiðu tíma.

Bubbi hefur verið þekktur fyrir setninguna „ástin og sorgin eru systur“ og segist hann standa við þau orð.

„Þær eru það, þú getur ekki aðskilið það og ég segi stundum lífið og dauðinn voru einu sinni par. Þannig að já ástin og sorgin eru systur og af þeim báðum hefur Bubbi verið kysstur,“ segir hann.

Hékk á horni hamingjunnar 

Spurður út í söguna á bak við lagið Á horni hamingjunnar segir Bubbi lagið fjalla um tímann sem hann kynntist Hrafnhildi.

„Þetta fjallar um mig og Hrafnhildi og þetta fjallar um það þegar ég hitti hana á AA-fundi, sjáðu hvort edrúmennskan borgar sig ekki,“ segir Bubbi og minnir í leiðinni alla þá sem eru úti og þjást af fíknisjúkdómi á að það sé alltaf til lausn. Lífið sé ekki búið þrátt fyrir að fólk glími við fíknivanda og það sé alltaf hægt að gera eitthvað í sínum málum.

„En lagið í rauninni fjallar um það að ég trúi dálítið á að hlutirnir komi til manns ef maður leyfir þeim það og maður opnar faðminn. Mér fannst þetta svo falleg mynd, sko við bæði vorum brotin og fyrir mér var Héðinsgatan sem var þá á sínum tíma á horni hamingjunnar og maður hékk dálítið á horni hamingjunnar. Svo sá maður hvað kom fyrir hornið og svo einn daginn þá kom Hrafnhildur, hún mætti og ég bara úff,“ segir hann.

Bubbi sagði í kjölfarið vini sínum frá stelpunni sem fékk maga hans til að snúast á AA-fundi en vinurinn sagði honum að hann ætti nú ekki að vera að pæla í stelpum þar.

„Ég sagði nei ég veit það en þetta bara gerðist og ég sagði við hann að ef þetta gerist einhvern tímann aftur og ég fæ svona tilfinningu aftur í magann þá ætli ég að bjóða henni í kaffi. Svo liðu margar margar vikur og svo einn daginn er ég á fundi og hún kemur og sér mig og brosir og ég fékk aftur svona „búmm“ og hjartað alveg upp í háls og ég hugsaði: Á ég að þora, á ég að gera eitthvað og svo bauð ég henni í kaffi,“ viðurkennir Bubbi.

Daginn eftir ákváðu Bubbi og Hrafnhildur að hittast og spjalla saman.

„En mér fannst ég eitthvað kannast við hana en ég vissi ekkert og ég skammaðist mín. Svo fór ég og „googlaði“ hana og þá bara „ó já þetta er hún.“ Svo segi ég við hana daginn eftir: „Heyrðu ég hérna, ég „googlaði“ þig og þá horfði hún á mig og sagði: „Já ég „gogglaði“ þig líka.“ Þetta lag er einhvers konar, alveg eins og Án þín þetta er svona rammi í kringum Hrafnhildi,“ segir hann.

Viðtalið við Bubba má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist