The Weeknd á toppnum á Íslandi

Abel Tesfaye, eða The Weeknd.
Abel Tesfaye, eða The Weeknd. AFP

Í síðustu viku var það tónlistarfólkið Jón Jónsson og GDRN sem sátu í fyrsta sæti Tónlistans með lagið sitt Ef ástin er hrein og tónlistarkonan Bríet sat í öðru sæti með lagið sitt Rólegur kúreki.

Tónlistinn, 40 vinsælustu lög landsins, er unninn upp úr gögnum frá Félagi hljómplötuframleiðenda og er eini opinberi vinsældalisti landsins. DJ Dóra Júlía kynnir listann á sunnudögum á K100 á milli 16:00 og 18:00. Meðal gagna sem notuð eru við vinnslu listans eru spilanir á Spotify.

Í þessari viku er það Sam Smith sem er hástökkvari vikunnar með lagið Diamonds og hækkar hann sig um 22. sæti frá því í síðustu viku og situr nú í 18. sæti.

Það er spennandi að sjá hvaða lög eru á lista þessa vikuna og hvaða smellur situr á toppnum.

Tíu vinsælustu lög landsins þessa vikuna:

Í 10. sæti situr Justin Bieber ásamt Bennu Blanco með lagið Lonely.

Í 9. sæti situr Íslenska ofurstjarnan Auður með lagið Fljúgðu burtu dúfa.

Í 8. sæti situr Ed Sheeran með lagið Afterglow.

Í 7. sæti er The Weeknd með fyrrum topplag ársins 2020, Blinding Lights. Lagið hækkar sig um fjögur sæti frá því í síðustu viku, hefur verið 57 vikur á Tónlistanum topp 40 og virðist sem vinsældum þessa lags séu engin takmörk sett.

Í 6. sæti sitja Birnir og Páll Óskar með alveg hreint frábæran dúett í laginu Spurningar.

Friðrik Dór skipar 5. sætið með nýjasta lag sitt Segðu mér

Í 4. sæti situr Olivia Rodrigo með lagið Driver's license. Lagið hefur verið að gera allt vitlaust víðs vegar um heiminn og er rödd Oliviu algjörlega mögnuð.

Söngkonan Bríet hefur algjörlega slegið í gegn í íslenska tónlistarheiminum undanfarin misseri. Plata hennar Kveðja, Bríet sló öll met í fyrra og er enginn vafi á því að hún er ein stærsta söngkona sem við íslendingar höfum alið af okkur. Hún situr í 3. sæti með lagið Rólegur kúreki sem sat ansi lengi á toppnum.

Í 2. sæti sitja Jón Jónsson og GDRN með lagið Ef ástin er hrein.

Í 1. sæti er The Weeknd með lagið Save Your Tears af plötunni After Hours sem kom út fyrir tæpu ári. The Weeknd hefur átt heldur betur gott ár og kom meðal annars fram í svokölluðu „half time show-i“ á Super Bowl.

mbl.is

#taktubetrimyndir