Ingó veðurguð kominn á vinnumarkaðinn

Ingó veðurguð með sótthreinsiefni.
Ingó veðurguð með sótthreinsiefni. Árni Sæberg

Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, sló í gegn með þjóðhátíðarlaginu sínu síðasta sumar en það var í fyrsta skiptið sem hann samdi þjóðhátíðarlag þrátt fyrir að hafa leitt brekkusönginn frá árinu 2013.

„Já það fór alveg furðu vel, ég var mjög stressaður að gera þjóðhátíðarlag. Hann bað mig um þetta í lok ársins 2019, hvort ég væri ekki til í að gera þjóðhátíðarlag. Mér fannst það svolítið mikil pressa því það var búið að ganga vel með brekkusönginn þannig að ég var aðeins hikandi að taka þetta að mér,“ segir Ingó í viðtali í morgunþættinum Ísland vaknar.

Vaknar klukkan sjö á morgnana í fyrsta skiptið á ævinni

Ingó segist nú þegar vera byrjaður að undirbúa sig fyrir næsta sumar og vonast hann til þess að hafa tíma til þess að gefa út nýjan sumarsmell. Hann hefur haft í nógu að snúast undanfarna mánuði enda er hann kominn inn á hinn hefðbundna vinnumarkað.

„Já ef ég hef tíma í það sko ég er komin í heildsölubransann. Ég er búinn að vakna sjö á morgnana síðan í september í fyrsta skiptið á ævinni og mér finnst það ótrúlega gaman. Þetta var svo spennandi tækifæri sem við duttum inn á. Þetta er lausn sem var hönnuð fyrir skurðstofur og tannlæknastofur. Það var skoskur efnafræðingur sem fann upp eina lífræna efnið sem er í sótthreinsiflokki 7, það er bara jafn sterkt og Ródalón og Oxivír. Hann finnur það upp og þeir hugsa, hann og þrír félagar, hvernig þeir geta fundið lausn, löngu fyrir Covid og allt ástandið, til þess að koma með þessa brúsalausn sem þeir koma svo með úr verksmiðju bara í sumar. Ég kynnti mér þetta allt og við erum eiginlega bara svolítið réttir menn á réttum stað þarna og við stökkvum á þetta. Þetta er svona brúsalausn. Þú getur sprengt einn brúsa og þá ertu með sterílt svæði í viku bæði í lofti og á yfirborðshlutum. Ýtir bara á einn takka og það mistast úr brúsanum yfir allt rýmið,“ segir Ingó um vöruna sem hann hefur nú flutt inn til landsins.

Sterk en heilnæm blanda

Varan sem um ræðir kallast X-mist og samkvæmt Ingó eyðir hún bæði bakteríum, veirum og myglu.

„Þetta hefur gengið mjög vel og við erum náttúrulega að fara inn á markað þar sem fólk gengur um með tuskur en við erum með ódýrari lausn sem hljómar svolítið „to good to be true“ myndu margir segja. En ég gæti sent ykkur gögnin og rannsóknir og allt,“ segir hann.

Brúsinn sem um ræðir sér um að hreinsa 25 fermetra svæði og fimm metra lofthæð.

„Þetta er lífræn blanda, hún er ofboðslega sterk en er heilnæm þannig að það verður svokölluð jónun í lofti og yfir alla snertifleti sem myndar síðan loftvörn líka í leiðinni. Þannig að ef það kæmi einhver inn og myndi hósta í áttina að ykkur þá eruð þið samt í öruggu svæði þar sem er búið að mista. Þetta meikar náttúrulega sens á skurðstofum og tannlæknastofum þar sem mega ekki vera neinar bakteríur eða veirur eða gerlar eða sveppir eða hvað sem það er. Af því að þetta er lífrænt efni þá drepur þetta svoleiðis bakteríur og þar sem það má blanda þessu í vatn og þetta er nýkomið með defra-stimpil sem þýðir að þetta má vera í kringum dýr og matvæli,“ segir hann.

Ingó segir fólk að sjálfsögðu vera með efasemdir um nýjar hreinsunarvörur á markaði en þrátt fyrir það hafi þeim gengið ótrúlega vel. Allar upplýsingar um vöruna má finna á heimasíðu X-mist en varan er komin í sölu í flestum verslunum.

Viðtalið við Ingó má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist