Koma landanum í gott skap á laugardagsmorgnum

Einar Bárðarson, Anna Margrét Káradóttir og Yngvi Eysteinsson.
Einar Bárðarson, Anna Margrét Káradóttir og Yngvi Eysteinsson.

Einar Bárðarson og Anna Margrét Káradóttir stýra nýjum morgunþætti á laugardögum á K100 ásamt Yngva Eysteinssyni sem er þeim til halds og trausts.

Einar þekkja flestir landsmenn af störfum sínum úr afþreyingargeiranum og Yngvi hefur starfað við útvarp í fjölmörg ár. Þetta er frumraun Önnu í útvarpi sem kemur fersk í starfið. Hún er leiklistarmenntuð frá Bretlandi og starfar sem aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð.

Þátturinn er léttur mannlífsþáttur þar sem þjóðinni er komið á notalegan hátt inn í helgina með gríni, glensi, viðtölum, fréttum og skemmtilegu spjalli ásamt bestu tónlistinni.

Lengi staðið til

„Það er rosalega gaman að fara í loftið með Önnu Möggu,“ segir Einar. „Hún er skemmtileg og hefur góða nærveru sem er plús því við komum beint í bílinn til hlustenda og setjumst við eldhúsborðið og vinnuna með þeim alla laugardagsmorgna.“ Í eitt og hálft ár stýrði Einar þættinum Bakaríinu á Bylgjunni ásamt Svavari Erni. „Menn segja að ég sé með andlit fyrir útvarp. Ég veit ekki alveg hvað það þýðir en ég treysti sprelligosunum í Hádegismóum. Þeir vita hvað þeir eru að gera.“

Sigurður Þorri Gunnarsson, dagskrárstjóri K100, segir að lengi hafi staðið til að vera með meiri dagskrá um helgar á K100. „Það gleður mig að við séum að fara í loftið með þennan þátt,“ segir Sigurður. „Einar er náttúrlega margreyndur í þessum bransa og það er gaman að fá hann til þess að stýra þessu ásamt Önnu sem kemur sterk inn í fyrsta starfið sitt í útvarpi. Ég er sannfærður um að þau eiga eftir að gera gott mót á laugardagsmorgnum og treysti því að hlustendur okkar taki þeim vel.“

Þátturinn er á dagskrá á laugardagsmorgnum frá 09 til rúmlega 12. 

mbl.is

#taktubetrimyndir