Sérsveitin mætti heim til JoJo og rak hana út

Skjáskot/Instagram

Stjörnufréttir Evu Ruzu

Ég sagði ykkur frá því á mánudaginn að barnastjarnan JoJo Siwa væri komin út úr skápnum. Nokkrum klukkutímum eftir að JoJo sendi frá sér yfirlýsinguna var sérsveit lögreglunnar í LA mætt stormandi heim til hennar, og skipaði JoJo og þremur vinum hennar að fara út úr húsinu.

JoJo vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og óttaðist mest að einhver óprúttinn aðili hefði brotist inn til hennar án hennar vitundar og væri í felum.

Það kom hins vegar í ljós að einhver aðdáandi hafði hringt í lögregluna með tilkynningu sem krafðist þess að sérsveitin mætti. Kallast þetta athæfi „swatting“ og er gert þannig að það lítur út fyrir að símtalið komi úr, í þessu tilfelli, síma JoJo. Tæknin er orðin mikil í dag og öllum brögðum beitt.

JoJo sagði í beinni útsendingu á Instagram, að það liti allt út fyrir að paparazzi-ljósmyndari hefði hringt og tilgangurinn hefði verið að „svæla“ hana út til að ná myndum af henni eftir stóru tilkynninguna.

JoJo sagði að það væri óþarfi að taka til slíkra örþrifaráða. Það væri hægt að hanga bara fyrir utan húsið hennar og bíða. Hún kæmi út á endanum.

Frétt frá Distractify.

mbl.is