Náðu tökum á þyngdinni með hugrænni atferlismeðferð

Sóley Dröfn Davíðsdóttir, forstjóri Kvíðameðferðarstöðvarinnar.
Sóley Dröfn Davíðsdóttir, forstjóri Kvíðameðferðarstöðvarinnar. mbl.is/Þórður Arnar

Bókin Náðu tökum á þyngdinni með hugrænni atferlismeðferð eftir Sóleyju Dröfn Davíðsdóttur, forstöðusálfræðing hjá Kvíðameðferðarmiðstöðinni kom út á dögunum og mætti hún í viðtal til þeirra Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í Síðdegisþáttinn. Þar ræddi hún um innihald bókarinnar og hvers vegna hugurinn skiptir svo miklu máli þegar kemur að því að ná tökum á þyngdinni.

„Hún snýst eiginlega um gleymda þáttinn í öllum þessum aðferðum sem hafa verið kynntar til sögunnar við það að ná tökum á þyngdinni. Í rauninni er það þannig að við hugsum ekki áður en við framkvæmum oft á tíðum, kannski ekki alveg alltaf. Í rauninni má segja að það sé eins og við séum í völundarhúsi og fáum tækifæri margsinnis á dag til að taka ákvarðanir, ætlum við að beygja til hægri eða vinstri. Því fleiri réttar ákvarðanir sem við tökum hvað varðar mataræði og hreyfingu því fyrr náum við markinu. Við fáum sem betur fer alltaf tækifæri mjög fljótt aftur þó við tökum rangar ákvarðanir og allt þetta. Þetta snýst um þetta að hafa áhrif á þessa ákvörðunartöku þannig að í rauninni við tökum ákvörðun í samræmi við það sem er okkur hollt,“ segir Sóley.

Gott að vera mannlegur

Sóley segir að það sé kannski ekki alltaf gott að vera algjörlega heilsusamlegur enda sé líka gott að vera mannlegur.

„Ég held að það sé nú líka bara gott að vera mannlegur og held að markið sé ekki það að allt sem maður geri sé 100% heilsusamlegt, það hlýtur að vera mjög bara leiðinlegt líf. En við viljum kannski taka fleiri góðar ákvarðanir, allavegana þegar við erum orðin það þung að það er farið að koma niður á heilsu okkar,“ segir hún.

Hún segir fullt af fræðslu og æfingum í bókinni en að fyrst þurfi maður að skilja hvernig heilinn okkar virkar.

„Við höfum sko í raun og veru að hluta til svona ákveðin hellisbúaheila. Þannig að við erum víruð til þess að sækja í orkuríka fæðu og svo erum við líka svolitlar sófakartöflur að upplagi þannig að við eigum líka að spara orku eftir að hafa borðað, til þess að brenna ekki strax öllu því sem við höfum hamstrað. Þannig að okkur er ætlað að sækja í orkuríka fæðu og hamstra til mögru tímanna og við erum í svolítið „toxísku“ umhverfi þannig að það er að hluta til ekki alveg okkur að kenna hvernig komið er fyrir okkur. Við eigum bara mjög erfitt með okkur í þessu umhverfi þar sem að við höfum svo greitt aðgengi að öllu þessu sem er okkur óhollt. Þess vegna þurfum við að vinna með því, til dæmis megranir þær espa aðeins upp viðleitni okkar til þess að hamstra, til þess að sækja í orkuríka fæðu. Þannig að það sem við erum oft að gera, það gerir oft bara illt verra. Eða það dugar aðeins til skamms tíma,“ segir hún.

Byrjum á vitlausum enda

Aðspurð út í föstu segir Sóley það ekki alrangt að fasta en veltir því fyrir sér hvort fólk sé oft ekki að byrja á röngum enda.  

„Þá bregst líkaminn við því eins og það sé hungursneyð komin að hann hægir á brennslu og ýmsu svona en þá er ég ekki að segja að það sé eitthvað alrangt að fasta en kannski er spurningin, erum við stundum að byrja á vitlausum enda? Við erum að setja okkur utanaðkomandi skorður með ákveðnu mataræði, með líkamsræktarátökum en hvað með að  byrja aðeins í hinum endanum. Þar sem að hugsanirnar eru og ákvarðanir eru teknar, það er ákveðið leynivopn í þessari baráttu. Þó að það sé kannski engin töfralausn á þessu, við erum í erfiðri stöðu í nútímasamfélagi en þetta getur komið að gagni,“ segir hún.

Sóley segir áhersluna í bókinni vera að vinna gegn öfgahugsun fólks.

„Við erum mjög öfgafull, við erum ýmist í átaki eða við látum átakið lönd og leið og þá erum við eins og síkisfoss í helvíti, alltaf að rúlla sama boltanum, við náum að grenna okkur og svo slökum við á, þyngjumst aftur, náum að grenna okkur og svo framvegis. Þannig að í staðin fyrir þessa öfgahugsun að vera ekki alltaf svona „on off“ að halda svolítið í þetta jafnt og þétt og leyfa okkur líka, að því marki sem við getum, það sem okkur langar í og svo framvegis. Ætla okkur ekki að verða 100% heilsusamleg og fara heldur ekki í hina áttina og þarna þarf að vinna með hugarfar,“ segir hún.

Eigum flókin og margþætt tengsl við mat

Sóley segir fólk með flókin og margþætt tengsl við mat. Við borðum þegar okkur líður vel og líka þegar okkur líði illa. Í bókinni fari hún ofan í saumana á því.

„Ef maður veit hvernig þetta virkar allt og hvernig þetta hangir saman og verður ótrúlega meðvitaður um það að þá er auðveldara að fatta; „Bíddu er ég núna komin í þennan afsökunargír eða „fokk it“ gírinn, skiptir ekki máli ég er hvort eð er kominn út af sporinu geri bara hvað sem er,“ og allt þetta en bara um leið og maður þekkir allar þessar meinsemdir í huganum að þá er auðveldara að breyta þessu,“ segir hún.

Viðtalið við Sóleyju má nálgast í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is