Þorir ekki að breyta garðinum vegna froskanna

Karen Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar er búsett í Ásahverfi í Garðabæ en þar eiga froskar það til að lifa góðu lífi í görðum fólks. Karen hefur svo sannarlega orðið vör við froskana enda býr hún í botnlanga með risastóran og skógi vaxinn garð. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Karen í Síðdegisþættinum og fengu að forvitnast um þessa skemmtilegu nágranna hennar.

Mikið af ókunnugu fólki sem gekk framhjá húsinu

Það var árið 2017 sem Karen varð fyrst vör við froskana í garðinum og ákvað hún að birta myndband af þeim á samfélagsmiðlum.

„Þá komu þeir frá Náttúrufræðistofnun Íslands til að byrja með sko, 2017 væntanlega, þegar ég álpaðist til þess að birta smá myndband af þessum froskum þegar krakkarnir mínir komu með þetta úr garðinum. Það var eins og við manninn mælt, þetta varð svona „instant hit“ og hver einasti fjölmiðill birti myndband af þeim í baðkarinu hjá mér. Þeir voru mjög sætir og þá kom Náttúrufræðistofnun Íslands og var eitthvað að skoða, en þá var mikill þurrkur og við fundum enga tegund. En þeir skoðuðu þetta nú eitthvað og ég veit ekki hvort þeim hafi tekist að greina tegundina almennilega en vitanlega var mikill áhugi fyrir þessu og það var mikill ágangur og áhugi og mikið af ókunnugu fólki að labba fram hjá. Ég bý í svona botnlanga með risastóran garð, mjög skógi vaxinn, og það var pínu óþægilegt,“ segir Karen.

Karen Kjartansdóttir
Karen Kjartansdóttir

Þorir ekki að breyta garðinum vegna froskanna

Aðspurð hvort froskarnir hafi komið úr heimahúsi og hafi verið sleppt út í náttúruna segist Karen telja að svo sé.  

„Já ég býst við því og þetta er mjög skemmtilegt. Mig langaði nú að gera breytingar á garðinum hjá mér og ætlaði að láta grafa upp einhver tré en ég er svo hrædd um að það komi niður á froskunum mínum,“ segir hún.

Karen segist verða vör við froskana á sumrin og þá sérstaklega þegar rignir. Á veturna sjást þeir hvergi.

„Mér skilst að þeir grafi sig niður í moldina. Það er talsverð órækt sums staðar í garðinum hjá mér, ég má segja þetta af því að þetta er ógnarstór garður. Stundum er þetta alveg haugur, einu sinni vorum við í útlöndum og þá voru systur mínar tvær í húsinu og þeim fannst allur garðurinn verða iðandi af þessu. Kettirnir mínir voru óskaplega ánægðir, þeir lágu bara í garðinum og átu. En þetta kemur helst í svona notalegri rigningu, þá eru þeir á ferðinni en svo þegar maður fær kannski einhverja góða gesti sem vilja sjá froska lítur maður út eins og maður sé gjörsamlega ímyndunarveikur og athyglissjúkur, þá finnst ekki neinn,“ segir Karen og hlær.

Garðyrkjusérfræðingurinn hélt að hún væri orðin rugluð

„Svo var ég með svona garðyrkjusérfræðing sem kom og skoðaði garðinn minn síðasta sumar og þá var ég lítið búin að verða vör við þá, það var ekki mikið um þá síðasta sumar. Ég er orðin dálítið vön þessu og er að sýna henni garðinn og er að færa til einhverjar trjágreinar og segi: „Já, svo væri nú gaman að setja eitthvað hér“ og svo öskra ég upp yfir mig og hún alveg: „Hvað, hvað?“ og ég alveg: „Æi nei, það er svo óvenjulega stór froskur hérna, ég hef ekki séð þá svona stóra“ og henni brá svo og hélt að ég væri orðin mjög rugluð,“ segir hún og viðurkennir að fyrir mörgum hljómi þetta mjög furðulega.

Viðtalið við Karen má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is