Er hægt að nýta Covid-lífstílinn til góðs?

Anna Lóa í Hamingjuhorninu ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel í morgunþættinum Ísland vaknar um aga. Þar velti hún því fyrir sér hvort ekki væri hægt að nýta þann aga og þá erfiðleika sem allir hafa þurft að ganga í gegnum undanfarið ár vegna Covid 19.

„Mig langaði svo að byrja á því að spyrja ykkur, þegar það breyttist tímasetningin á þættinum hjá ykkur og þið farið að byrja klukkan 6:00, það segir mér enginn annað en að þetta hafi verið mikil breyting fyrir ykkur á lífi ykkar, bara upp á að fara að sofa og vakna og allt þetta, hvernig upplifðuð þið þetta?“ Spyr Anna Lóa.

Kristín svarar því til að fyrir henni hafi breytingin verið fín. Jón segir breytinguna einmitt aðallega vera þennan aga sem Anna talar um, að geta ekki hangið yfir sjónvarpi langt fram eftir nóttu. Nú verði hann að halda aganum uppi og fara snemma að sofa. Ásgeir segir breytinguna aðallega hafa fært prógramm hans til en að öðru leyti hafi hann ekki fundið mikla breytingu.

Höfum þurft að beita okkur miklum aga

„Það að byrja að vakna klukkutíma fyrr eða einum og hálfum tíma fyrr kallar á mikinn aga og síðasta árið höfum við þurft að beita okkur miklum aga. Þurft að fylgja alls konar reglum sem okkur hefði ekki órað fyrir og spurningin er hvernig getum við notað þennan aga á okkur sjálf. Við erum búin að sýna fram á það að þó að við höfum kvartað og kveinað og þetta hafi oft verið okkur erfitt erum við búin að aga okkur inn í alls konar nýja hluti. Þannig að það er spurning, hvernig getum við notað þennan aga svolítið áfram þó að hann sé ekkert endilega kominn til af góðu,“ veltir Anna Lóa fyrir sér.  

„Þegar við erum að tileinka okkur nýja hluti eins og þegar þið þurftuð að fara að vakna klukkan fimm í staðinn fyrir hálfsjö eða hvernig sem þetta var, fyrstu vikurnar hefur þetta örugglega verið mjög erfitt, síðan er þetta bara orðinn vani og verður að lífsstíl og þó svo að þið mynduð hætta með útvarpsþáttinn á morgun mynduð þið ekkert allt í einu fara að sofa klukkan 11. Af því að þið eruð líka búin að komast að því að það eru ákveðnir kostir við það að gera hlutina eins og þið gerið þá í dag,“ segir hún.

Lífið hefur einfaldast til muna eftir Covid

Anna Lóa segist sjálf finna þetta eftir að hafa lifað eftir breyttum venjum vegna Covid.

„Ég finn þetta bara á sjálfri mér að lífið hefur einfaldast til muna og auðvitað eru hlutir sem maður saknar að vera ekki að gera í dag en það eru líka ákveðnir hlutir sem hafa komið þarna inn sem hafa fylgt því að maður hefur þurft að vera agaðri. Eins og til dæmis að ég er farin að vakna fyrr, sem þýðir það að ég er farin að sofa fyrr á kvöldin, sem þýðir meira skipulag, sem þýðir minni óreiða í hausnum á mér, sem þýðir meiri vellíðan. Þannig að bara ein lítil breyting getur kallað fram fjöldann allan af öðrum breytingum,“ segir hún.

Getum við nýtt agann til að bæta líf okkar?

Anna tekur sem dæmi hvað handþvottur hefur breytt miklu fyrir okkur Íslendingana.

„Til dæmis það eins og þeir eru að segja í dag að þeir eru ekki farnir að merkja komu inflúensunnar enn þá og það er minna um iðrabólgu og magakveisur og alls konar svona hluti sem er út af því að við erum öll núna að þvo okkur um hendurnar og spritta okkur oftar og kannski er þetta einmitt komið til að vera bara svona almenn vitund um hvað við þurfum að huga alltaf að hreinlæti. Þið munið þegar við vorum að byrja á þessu, þá þurftum við alltaf að vera á minna okkur á þetta, núna gerir maður þetta bara án þess að hugsa málið.

Spurningin er hvort við getum notað þennan lífsstíl á síðasta ári, þar sem við bæði þurftum að vera hlýðin, þurftum að fylgja reglum sem okkur fannst glatað að þurfa að fylgja til að byrja með en okkur finnst sjálfsagt í dag og við höfum þurft að nýta okkur meiri aga. Hvernig getum við nýtt hann til að bæta líf okkar og breyta?“

Viðtalið við Önnu Lóu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is