Allt sem þú þarft að vita um þvottavélar og þurrkara

Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Í Græjurannsóknarstofu Loga og Sigga í Síðdegisþættinum fengu þeir Val Hólm frá Elko til sín og ræddu við hann um heimilistækin þvottavélar og þurrkara. Þeir veltu því fyrir sér hvað það sé sem geri þvottavélar og þurrkara góð tæki og hvort einhver fræði séu á bak við það að velja sér rétta þvottavél og réttan þurrkara.

„Sko, þurrkari er nú bara þurrkari en samt, þú ert með þéttiþurrkara sem eru gömlu þurrkararnir með málmhólkinum sem þú dróst út og þurftir að spúla. Þeir þurrkuðu ótrúlega hratt og allir elskuðu þá. Við höldum einmitt að þeir séu svo geggjaðir af því að þeir eru svo fljótir en það er einfaldlega út af því að þeir eru stilltir á svo sjúklega hátt hitastig, fara verr með þvottinn, rífa trefjarnar úr fötum mun meira svo það er miklu meiri ló sem fer í sigtið. Nýju þurrkararnir sem við mælum með eru varmadæluþurrkararnir. Þeir nota miklu minna rafmagn, þeir eru aðeins lengur að þurrka. Átta kílóa þéttiþurrkari er tvo klukkutíma og kortér að þurrka, átta kílóa varmadæluþurrkari er í tvo klukkutíma og fjörutíu og fimm mínútur. Það munar hálftíma og það er miklu einfaldara að þrífa síuna, þú ryksugar þetta einu sinni í mánuði,“ segir Valur.

Stillingarnar bæta lífið

Aðspurður hvort stillingarnar á þurrkaranum skipti í raun einhverju máli svarar Valur því játandi.

„Þetta bætir lífið, að vita um öll þessi prógrömm og hvað þau gera. „Refresh-ið“ er til dæmis ef þú ert með bol sem þú ert búinn að vera með upp í skáp í nokkrar vikur þess vegna og það eru komnar svona krumpur í hann. Þú hendir honum bara í þurrkarann á „refresh“ í tuttugu og fimm mínútur og þá kemur hann út bara sléttur og fínn og tilbúinn til þess að fara í án þess að vera bara límdur við líkamann. Svo eru komin ullarprógrömm í nýju þurrkarana. Þau eru orðin bara „thing“. Fólk var ekkert að þurrka ull í gamla daga en núna þurrka þau þetta á miklu vægara hitastigi og ná öllu vatninu úr og svo getur þú hengt ullina upp án þess að það sé að teygjast á henni og að það fari illa með hana,“ segir hann.

Valur mælir þó ekki með því að fólk setji mjög viðkvæm föt í þurrkara og segir stillingarnar skipta miklu máli þegar kemur að þurrkun.

„Það er rakaskynjari í nýju þurrkurunum, þú stillir bara á hversu þurrt þú vilt hafa þetta og þá er þetta bara stopp, búið. Þannig að tíminn sem þú sérð, þessir tveir og hálfur eða þrír tímar, hann er kannski þrjá tíma ef þú setur of mikið í hann en þessi tími breytist sem sagt út af því að um leið og þetta er orðið þurrt að þá stoppar hann. Það sem fer í sigtið í þurrkaranum það eru allt saman trefjar úr fötunum, sem eru að tætast úr fötunum,“ segir hann.

Of mikið þvottaefni skemmir þvottavélarnar

Þegar kemur að þvottavélakaupum segist Valur alltaf mæla með því að kaupa örlítið dýrari vél fyrir þau heimili sem nota þvottavélina á hverjum degi.

„Gamli skólinn myndi mæla með ediki og Rodaloni fyrir fúkkalykt sem getur myndast í þvottavélum. En það eru komin hreinsiprógrömm á flestar vélar. En það er ráðlagt að henda í suðu svona einu sinni í mánuði og þurrka úr gúmmíbelgnum sem er utan um tromluna, bara að þurrka úr honum eftir hvern þvott eða annan hvern þvott að þá kemur þú í veg fyrir þessa fúkkalykt. Það sem er að skemma þvottavélarnar er of mikið þvottaefni því ef þú setur of mikið þvottaefni og upp að vissum punkti eru fötin ekkert að verða neitt hreinni, þvottaefnið leggst bara á fötin þegar það er búið að þvo þau og leggst á tromluna, fer verr með vélina og myndar svona silíkonhúð í tromlunni bara. Þess vegna eru akkúrat púðarnir algjörlega „killer“ fyrir þvottavélar. Púðarnir eru ógeðslega þægilegir eins og í uppþvottavélarnar, bara ein tafla og búið. En málið er að á Íslandi, út af því að vatnið okkar er svo miklu mýkra, þegar þú heldur að þú sért kominn með nóg þvottaefni ertu alveg pottþétt með of mikið, af því að við þurfum svo lítið,“ segir hann.

Þá segir Valur að það sama gildi um mýkingarefni, of mikil notkun á því eyðileggi hreinlega þvottavélina og fötin.

„Ég er alveg „team“ mýkingarefni, bara pínu, bara dropa til þess að fá lyktina en ekki að vera að setja heilu tappana í vélina. Það er það sama og með of mikið þvottaefni, það myndast sílíkonhúð í tromlunni og það fer bara allt í rugl og fötin verða bara loðin af því,“ segir hann.

Þvoum allt of lengi

Í dag er svo hægt að fá snjallþvottavélar sem hægt er að setja af stað í gegnum símann. Þær geti svo sent tilkynningu þegar þvotturinn er tilbúinn.

„Snjallþvottavélarnar eru gríðarlega sniðugar fyrir þá sem nota til dæmis mikið „delay“-stillingarnar á þvottavélinni sinni, setja þvottinn í vélina á kvöldin en „starta“ henni ekki, en þannig að hún er búinn að þvo þegar þú vaknar,“ segir hann.

Valur mælir einnig með því að fólk þvoi þvottinn sinn í styttri tíma heldur en vanalega og nýti sér þar til gerðar stillingar á vélunum.

„Með tækin okkar öll sem við notum á hverjum einasta degi þá geta bara nokkrir bláir farið með þig ansi langt. Af því að eins og til dæmis ódýrar þvottavélar sem kosta kannski fimmtíu þúsund, þær virka alveg og vinna sína vinnu en ef þú ert til dæmis með stóra fjölskyldu og notar þetta á hverjum degi þá myndi ég alltaf mæla með að fara kannski í 90 þúsund kallinn,“ segir hann og bætir við: „Við þurfum ekki að þvo svona lengi, bara fötin sem þú gengur í er þetta eitthvað skítugt? Ertu eitthvað að leika þér í drullunni? Þannig að klukkutími er yfirleitt nóg fyrir bara svona hálfa vél til dæmis. Sumar vélar eru með fjórtán mínútna prógramm eða hálftíma prógramm,“ segir hann.

Viðtalið við Val má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist