Opnaði ókeypis verkstæði eftir að hjólinu var stolið

Ljósmynd/Robbie Pruitt

Presturinn Robbie Pruitt lenti í því óheppilega atviki að hjólinu hans var stolið síðastliðið haust. Í fyrstu fann hann fyrir svolítilli reiði, en fljótlega fór hann að finna fyrir samkennd.

Það fyrsta sem hann gerði var að reyna að finna sér nýtt hjól, en áttaði sig á því að möguleikar á nýju hjóli voru mjög takmarkaðir og kostnaðarsamir. Hann fór þá að velta því fyrir sér hvort það væri tengt alheimsfaraldrinum og hvort einstaklingurinn sem stal hjólinu hans hefði verið í mikilli neyð.

Út frá því ákvað Pruitt að bjóða upp á ókeypis lagfæringar á hjólum fyrir hvern sem þyrfti á því að halda. Hann sendi einnig fyrirspurnir um illa farin hjól sem fólk vildi losa sig við, sem hann myndi laga og svo gefa þeim sem þyrftu á nýju hjóli að halda og glímdu við fjárhagsörðugleika.

Þetta vakti mikla athygli og lukku og í lok árs 2020 hafði Pruitt lagað meira en 140 hjól sem fóru annaðhvort aftur til eiganda síns eða urðu að gjöf fyrir nýja eigendur. Eftir það hefur hann haldið ótrauður áfram.

Þetta skemmtilega framtak Pruitts hefur enn fremur gefið honum tækifæri á að sýna krökkum í hverfinu hvað það getur verið auðvelt að endurnýta og gera við það sem er bilað, en hann hefur leiðbeint þeim við að gera við hjólin sín.

Frábær leið til þess að mæta því sem í fyrstu vakti reiði með samkennd og umhyggju við að gera eitthvað uppbyggilegt!

Frétt frá: Goodnewsnetwork.

mbl.is