Bling Empire óð inn á Netflix eins og stormsveipur

Ljósmynd/Skjáskot/Netflix

Stjörnufréttir Evu Ruzu:

Empire Bling er nákvæmlega það sem ég þarf að ræða við ykkur, en þættirnir hafa vaðið inn á Netflix eins og stormsveipur.

Þættirnir eru raunveruleikaþættir af bestu gerð. Þeir eru byggðir á kvikmyndinni Crazy Rich Asians, og í þeim fáum við að kynnast vellauðugum Asíubúum sem búa í Los Angeles. Og þegar ég segi vellauðugum, þá er ég að meina að þau eiga svo mikla peninga að við getum ekki einu sinni ímyndað okkur það.

Ljósmynd/Skjáskot/Netflix

Kane, Anna, Kim, Christine, Jamie, Kelly og Kevin eru aðalsöguhetjurnar. Kane er til dæmis sonur billjónera sem býr í Singapúr, Kim Lee er frægasti plötusnúður í Austur-Asíu, Kevin er hins vegar alls ekki jafn ríkur og vinir hans og fær reglulega skemmtilegt sjokk yfir ýmsu sem hinir ríku vinir hans taka upp á.

Flest eiga þau sameiginlegt að hafa fæðst inn í brjálæðislega ríka fjölskyldu og aldrei þurft að hafa fyrir lífinu.

Það sem skilur þessa þætti frá öðrum raunveruleikaþáttum í líkingu við þá er sú staðreynd að þau hafa verið vinir í mörg ár. Einnig glíma þau við ástvinamissi, ófrjósemi, eru opin með menningarmuninn og pressuna sem fjölskyldurnar leggja á þau.

Bling Empire ná manni einhvern veginn alveg frá fyrsta mómenti. Þau eru rík, gjafmild, ljúf, virðast leggja sig fram við að vera góðir vinir og auðvitað fáum við drama líka beint í æð. Sem sagt uppskrift af bestu gerð.

mbl.is