Skemmtileg upplifun að lenda í sóttkví á herspítala

mbl.is/Ó​feig­ur Lýðsson

Þóra Valný Yngvadóttir lenti í sóttkví á gömlum herspítala í Víetnam ásamt eiginmanni sínum, Júlíusi Ingólfssyni og öðru pari sem þau ferðuðust með í byrjun síðasta árs. Þóra ræddi á sínum tíma við morgunþáttinn Ísland vaknar og lýsti því hvernig var að vera í sóttkví við þessar aðstæður.

Nú tæplega ári seinna mætti Þóra aftur í Ísland vaknar og segir hún að upplifunin hafi verið heilmikið ævintýri sem þau lærðu mikið af. Þóra er um þessar mundir með námskeið sem hún kallar Operation kjörþyngd og ræddi hún einnig um það við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel.

„Til allrar hamingju þá komst ég þaðan og þetta var nú bara mjög skemmtilegt þegar upp var staðið. Þetta er skemmtileg saga og var heilmikið ævintýri og Víetnamarnir eru yndislegt fólk. Það var ofsalega vel um okkur hugsað og maður lærði það mjög fljótt að ef þú ætlar að lenda í svona sóttkví fangelsi í Víetnam að þá er vissara að vera Íslendingur,“ segir Þóra.

Sóttkvíin reyndi á útsjónarsemina

Hún segir íslenska ræðismanninn og ferðaskrifstofuna hafa hugsað vel um sig á meðan á dvölinni stóð en þau hafi þurft að vera á herspítalanum í sjö daga.

„Við fórum síðan heim, vorum ótrúlega heppin. Þau sögðu alltaf að við færum heim á morgun. Svo föttuðum við það að á morgun þýðir bara einhver morgun, ekkert endilega á morgun,“ segir hún.

Þóra segir það hafa reynt svolítið á útsjónarsemina að dvelja í sóttkvínni en þau hafi þó skemmt sér vel saman.

„Við vorum svo heppin að við vorum fjögur saman, vorum tvö pör að ferðast saman og við erum frekar miklir vitleysingar og það er alveg nauðsynlegt í svona aðstæðum. Við vorum ýmislegt að bralla þarna og skemmta okkur við hitt og þetta,“ segir hún.

Fólk ákveði sína kjörþyngd sjálft

Í dag heldur Þóra námskeiðið Operation kjörþyngd.

„Ástæðan fyrir því að ég valdi þetta nafn er af því að ég og margir aðrir erum í þeim sporum að við viljum komast í kjörþyngd og þegar ég segi kjörþyngd þá á ég við þá kjörþyngd sem þú telur að sé góð fyrir þig. Sem er þín góða heilsa, sem þér líður vel í. Ekki vera láta neinn annan segja þér hvað það á að vera heldur ákveddu það sjálf fyrir þig,“ segir hún.

„Það sem maður hefur tekið eftir er að það vantar ekki viljann, allir fara af stað í janúar fullir af eldmóð og fullt af góðum prógrömmum til og hvað gerist svo. Hvað vantar upp á? Hugurinn. Það vantar hugarfarið. Þetta er eins og að byggja hús án þess að steypa grunninn. Þannig að það sem við erum að gera er að skoða hugarfarið. Hann ber mann hálfa leið og hann ber mann fyrsta helminginn af leiðinni. Við erum að byrja á að skoða hugarfarið og þetta sjálfstal og hvernig fólk er að vinna með það og hverjir eru þínir hindrarar og hverjir eru þínir hjálparar. Við skoðum það hvernig það sem þú hefur verið að gera hingað til hefur ekki verið að hjálpa þér,“ segir hún.

Viðtalið við Þóru Valnýju má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist