Scwarzenegger: „Komdu með mér ef þú vilt lifa“

Ljósmynd/Skjáskot/Facebook

Arnold Schwarzenegger deildi myndbandi af því þegar hann fékk bóluefni gegn Covid-19 á samfélagsmiðlum sínum.

„Í dag var góður dagur. Ég hef aldrei verið jafn ánægður að bíða í röð. Ef þú mátt fá bóluefni, skráðu þig þá og gakktu til liðs við mig. Komdu með mér ef þú vilt lifa,“ skrifaði Schwarzenegger við myndbandið og hvetur þannig fólk til þess að fá bólusetningu.

Margir aðdáendur hans skrifuðu athugasemdir við færsluna og voru einhverjir þeirra greinilega á móti bólusetningunni. Schwarzenegger fannst hann því knúinn til þess að svara þeim með góðum rökum.

„Ég hef alltaf sagt að þú eigir að þekkja styrkleika þína og hlusta á sérfræðingana. Ef þig langar til þess að læra um það hvernig þú átt að byggja upp góða tvíhöfða þá hlustar þú á mig af því  ég hef eytt ævi minni í það að læra um það hvernig þú átt að ná þeim fullkomnum og ég hef verið kallaður besti líkamsræktaraðili allra tíma. Við höfum öll mismunandi sérgreinar. Dr. Fauci og allir hinir veiru- og faraldsfræðingarnir ásamt læknunum hafa lært um sjúkdóma og bólusetningar allt sitt líf, svo ég hlusta á þá og ég hvet ykkur til þess að gera hið sama,“ segir hann og bætir við: „Ekkert okkar mun læra meira á því að horfa á nokkra klukkutíma af einhverjum myndböndum. Þetta er einfalt: Ef það er kviknað í húsinu þínu, þá ferð þú ekki á YouTube, þú hringir í slökkviliðið. Ef þú færð hjartaáfall, þá spyrð þú ekki út í það á facebookhópi, þú hringir í sjúkrabíl.“

Krefst styrks að viðurkenna að þú veist ekki allt

Þá segir Schwarzenegger að í þessu tilfelli séu hinir raunverulegu sérfræðingar um allan heim búnir að gefa það út að bólusetningin sé örugg og biðlar hann því til fólks að hlusta á þá.

„Ég held að ef hópurinn af því fólki sem þú treystir fer minnkandi og þú upplifir sjálfan þig meira og meira einangraðan þá ætti það að vera merki um það að þú sért á leið niður í holu af röngum upplýsingum. Sumt fólk segir að það sé veikleikamerki að hlusta á sérfræðingana. Það er bull. Það krefst styrks að viðurkenna það að þú veist ekki allt. Það er veikleiki að halda að þú þurfir ekki ráð frá sérfræðingum,“ segir hann.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist