Mikilvægt að fólk fái að kveðja á sinn hátt

Ásdís Ásgeirsdóttir

Sigríður Bylgja hjá Tré lífsins hefur undanfarin ár unnið í því að þróa annars vegar lífsbókina, gagnagrunn þar sem fólk getur skráð niður sögu sína og hinstu óskir, og hins vegar bálstofu. Hún ræddi við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum og sagði þeim frá verkefninu.

„Tré lífsins er sem sagt frumkvöðlaverkefni sem ég er búin að vera að þróa undanfarin ár og skiptist í tvo hluta. Annars vegar Lífsbókina sem er staður sem er rafrænn gagnagrunnur þar sem fólk mun geta skráð niður söguna sína, minningar og hinstu óskir og svo hinn hluti verkefnisins sem er umhverfisvæn og óháð bálstofa sem verður líka með athafna- og kyrrðarrými. Bara risastór og flott bygging þar sem fólki gefst síðan sá valkostur að gróðursetja öskuna ásamt tré í minningargarði þegar viðkomandi fellur frá,“ segir Sigríður.

Stórt og umfangsmikið verkefni

Sigríður segir verkefnið stórt og umfangsmikið og að hugmyndin hafi fyrst komið upp fyrir fimm árum. Undanfarin tvö ár hafi þau verið á mikilli keyrslu í verkefninu.

„Lífsbókin er það sem fólk mun geta skráð sig í fyrst og við erum komin með „prótótýpu“ af henni sem bíður þess að fara í forritun. Við erum að vinna í miklum öryggis- og notendaprófunum áður en hún fer í loftið en þá mun fólk sem sagt geta keypt sér aðgang að henni og haldið utan um söguna sína og lífshlaupið sitt í gegnum ævina og svo nálgast aðstandendur þetta þegar að viðkomandi fellur frá. Þeir geta þá gengið að því vísu að virða óskir hins látna og eiga auðvitað allar minningar sem viðkomandi sjálfur skrifaði eða tók upp hljóðupptöku eða myndband og þetta verða náttúrulega þvílíkar gersemar þegar fólkið okkar er fallið frá,“ segir hún.

Mikilvægt að vita hinstu óskir fólksins okkar

Hún segir reynsluna hafa kennt sér að stórt verkefni sem þetta taki góðan tíma í þróun en hún sér fyrir sér að lífsbókin verði vonandi tilbúin á þessu ári eða byrjun þess næsta.

„En síðan varðandi bálstofuna og hina hlutina tekur náttúrulega tíma að byggja bálstofuna og við vorum nú reyndar að fá vilyrði fyrir lóð í Garðabæ á virkilega fallegum stað þar,“ segir hún og bætir því við að nú sé einfaldlega verið að bíða eftir leyfum. Eins og lögin séu í dag megi ekki dreifa ösku hvar sem er.

„Það sem okkur þykir langmikilvægast og er markmiðið með Tré lífsins er að fólk hafi val sem samræmist þeirra trúar- eða lífsskoðun því valið okkar er eiginlega mjög takmarkað í dag. Við viljum bjóða upp á mismunandi svona form af því hvernig fólk hefur kveðjustundina sína, þú veist þeirra hinstu kveðju stund. Hvað vilt þú skilja eftir þig? Verður síðasta partýið þitt ekki bara svolítið gott partý? Í rauninni sko, þrátt fyrir að auðvitað ég beri fulla virðingu fyrir dauðanum og sorgin er ótrúlega erfið og við þekkjum hana flest af eigin raun, þetta er vont. En og þá skiptir líka miklu máli að við vitum hinstu óskir aðstandenda okkar og að þau fari á sinn hátt,“ segir hún.

Viðtalið við Sigríði má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is