Á morgun hefur Þjóðleikhúsið sýningar á Stóra sviðinu eftir nær fjögurra mánaða samfellt hlé vegna samkomubanns.
Frumsýndur verður einleikurinn Vertu Úlfur eftir Unni Ösp Stefánsdóttur sem einnig leikstýrir. Verkið er byggt á bók Héðins Unnsteinssonar sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin kom út árið 2015 og í henni fjallar Héðinn á opinskáan hátt um baráttu sína við geðrænar áskoranir eftir að hafa greinst með geðhvörf sem ungur maður.
Í einleiknum er fjallað hispurslaust um baráttuna við geðsjúkdóma út frá sjónarhóli manns sem í senn glímir við geðraskanir og starfar innan stjórnsýslunnar á sviði geðheilbrigðismála. Héðinn, höfundur bókarinnar, hefur sjálfur starfað við stefnumótunarmál í geðheilbrigðismálum og er í dag formaður Geðhjálpar.
Í tengslum við sýninguna gefa Emilíana Torrini og Prins Póló út tvö ný lög sem segja má að endurspegli ólíkar hliðar geðhvarfanna.
Lag Emilíönu, sem hún samdi í samvinnu við Margréti Irglová fangar dekkri og viðkvæmari hliðar geðhvarfa á meðan lag Prins Póló endurspeglar oflætið. Lag Emilíönu er með íslenskum texta og er það í fyrsta skiptið sem Emilíana gefur út lag á Íslensku. Þá var texti hennar einnig notaður í lagi Prins Póló. Höfundur annarrar tónlistar í sýningunni er Valgeir Sigurðsson sem á langan feril að baki í kvikmynda- og leikhústónlist.