Sveppi hannar og selur sína eigin fatalínu

Ljósmynd/Skjáskot/Facebook/Mushroom fatalína

Sverrir Már Helgason er fimmtán ára gamall nemandi í tíunda bekk í Norðlingaskóla. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann stofnað sitt eigið fyrirtæki þar sem hann hannar og selur sína eigin fatalínu undir nafninu Mushroom. Sverrir, sem er ávallt kallaður Sveppi, mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar og ræddi þar við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel um hugmyndina að fyrirtækinu og hvernig það sé að stofna fyrirtæki svona ungur.

„Við vorum að gera verkefni í skólanum og áttum að gera límmiða og það átti að gera „logo“ á þá, það var í áttunda bekk. Þá bjó ég til sveppinn og svo áttum við aftur að gera svona verkefni í tíunda bekk og þá bjó ég til Mushroom stafina. Þá kom ég bara heim strax og sagði við mömmu að ég ætlaði að gera fatamerki,“ segir Sveppi um upphaflegu hugmynd fyrirtækisins.

Sveppi selur hönnun sína á Instagram og Facebook síðu Mushroom en þar tekur hann niður pantanir. Hann hóf sölu á fatnaðinum í nóvember á síðasta ári og er nú þegar kominn í plús. Hagnaðinn leggur hann fyrir og segist í augnablikinu vera að safna sér fyrir bíl.

Aðspurður að því hvað hann myndi ráðleggja fólki með góðar hugmyndir sem langi til þess að fara út í rekstur segir hann:  „Ef þú ert með einhverja hugmynd að fara og framkvæma hana, prófa og sjá hvað gerist,“

Viðtalið við Sveppa má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is