„Ég ákvað að vera dálítið opinn fyrir nýjungum“

Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason.

Rúrik Gíslason er nýkominn til landsins eftir að hafa ferðast með kærustu sinni Nathaliu Soliani um Brasilíu. Rúrik mætti í Síðdegisþáttinn og ræddi við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars um hvað sé framundan hjá honum.

„Það var meiri háttar, forréttindi í rauninni að hafa afsökun til að þurfa að fara að hitta fjölskyldu hins helmingsins erlendis,“ segir Rúrik aðspurður út í utanlandsferðina.

Rúrik segir fólk almennt mjög almennilegt við hann þegar hann ferðast og þrátt fyrir að vera heimsþekktur fái hann frið. Hann segir það ekki hafa verið erfitt að ferðast vegna Covid og viðurkennir að hafa orðið lítið var við sóttvarnaraðgerðir. Þó hafi veitingastaðir í Sao Paulo verið lokaðir í tvo daga fyrir jólin. Sóttkvínni eyddi Rúrik svo í að klára að horfa á þáttaseríurnar Venjulegt fólk og að vinna.

Ákvað að vera opinn fyrir nýjungum

Það er nóg að gera hjá Rúrik á næstunni en nýlega var greint frá því að hann mun taka þátt í dansþáttunum Let‘s Dance í Þýskalandi.

„Ég ákvað að vera dálítið opinn fyrir nýjungum. Það eru allskonar hugsanir sem gætu verið að bremsa mann af og maður gæti alltaf verið í einhverju „safe zone“ úti á golfvelli eins og Logi gerir nú, en þetta er ákveðið „challenge.“ Ég segi bara eins og keppandi í ungfrú Ísland; Þetta er bara dálítið út fyrir þægindarammann,“ segir Rúrik og hlær.

Rúrik viðurkennir að hann sé alls enginn dansari og að þetta verði því alveg ný reynsla fyrir honum.

„Mér líður miklu betur inn á fótboltavelli heldur en inn á dansgólfi en ég hef ekkert verið neitt sérstaklega hræddur við að prófa eitthvað nýtt. Þetta er klárlega liður í því að opna þekkingarsviðið hjá manni og læra eitthvað nýtt og vera svolítið „open minded“ fyrir nýjungum,“ segir hann.

Rúrik Gíslason lék síðast með Sandhausen.
Rúrik Gíslason lék síðast með Sandhausen. Ljósmynd/svs1916.de

Brást ekki vel við hugmyndinni fyrst

Hann viðurkennir þó að upphaflega hafi hann ekki brugðist sérstaklega vel við hugmyndinni en eftir að hafa velt þessu betur fyrir sér sé hann spenntur.

„Fyrst þegar þetta kemur upp þá viðurkenni ég það að ég brást ekkert sérlega vel við. Umboðsmaðurinn minn ber þetta inn á borð hjá mér og segir að það sé búið að bjóða mér að taka þátt í þessu og meira að segja var mér boðið að taka þátt í þessu í fyrra og umboðsmaðurinn minn sá þetta bara sem verkefni og hún þarf að fá laun og svona og hún skildi bara ekki að ég gat ekki tekið þátt í þessu á meðan ég var að spila fótbolta,“ segir Rúrik og hlær. Hann bætir svo við: „Þannig að ég viðurkenni það að mér fannst þetta ekkert sérstaklega spennandi í byrjun en svo ákvað ég svona að spyrja fólkið í kringum mig, sérstaklega stráka sem ég spilaði með úti í Þýskalandi og það voru einróma jákvæð viðbrögð í garð þessara þáttar. Þetta er víst mjög vinsælt þarna úti, að mér skilst bara lang vinsælasti sjónvarpsþátturinn með lang mesta áhorfið þannig að þetta er bara spennandi.“

Tökur á þáttunum byrja 5. febrúar næst komandi og fyrsti þátturinn fer í loftið þann 26. febrúar. Rúrik segist ekkert mega byrja að æfa sig fyrir þættina enda eigi hann að koma alveg ólærður inn í þá.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu, ég ætla bara að fara inn í þetta verkefni dálítið jákvæður. Sumir eiga þá „tendensa“ að finnast allt asnalegt og finna eitthvað að öllu en ég er ekki þannig. Það er ekkert vesen, vesen eru bara leiðindi,“ segir hann.

Reynir fyrir sér í tónlistinni

Dansþættirnir eru þó ekki það eina sem er fram undan hjá Rúrik en undanfarið hefur hann lagt tónlistina fyrir sig og leikið í kvikmynd sem kemur út fljótlega.

„Ég veit ekkert hvort ég kunni að dansa eða jú eiginlega ég veit alveg að ég kann ekkert að dansa og ég veit ekkert hvort ég kunni eitthvað að leika og ég veit ekkert hvort ég kunni eitthvað að syngja en mér finnst þetta allt ógeðslega gaman og er alveg til í að prófa hitt og þetta. Mér fannst alveg ótrúlega gaman að taka þátt í þessari bíómynd,“ segir Rúrik.

Aðspurður hvort hann hafi alltaf haft hug á því að fara út í tónlistina svarar Rúrik því neitandi.

„Ég bara fékk gítar í jólagjöf þegar ég var tíu ára, hafði beðið um snjóbretti og ég grenjaði öll jólin af því að ég fékk ekki snjóbretti þannig að ég byrjaði síðan að spila á hann. Mágur minn kunni á gítar og kenndi mér og ég hef alltaf haft mjög gaman af því að spila tónlist og búa til tónlist. Svo er ég beðinn um í kjölfar Atvinnumannanna okkar þar sem ég spilaði smá hljóðbút úr lagi, þá fékk ég símtal og er beðin um að syngja inn hljóðbút í lag. Ég er ekkert sérstaklega góður í því að segja nei og ég sagði bara já. En ég veit ekkert hvort ég sé einhvers virði sem söngvari. Þetta er bara svona „side project“ allavegana núna en svo sjáum við bara hvert þetta fer,“ segir hann.

Rúrik prísar sig sælan að fá boð um að taka þátt í allskonar hlutum sem honum þykja skemmtilegir. Aðspurður að því hvort hann sé farinn að æfa bumbubolta með öðrum atvinnu fótboltamönnum sem hafa lagt skóna á hilluna svarar hann því neitandi. Hann viðurkennir þó að hann hreyfi sig mikið dagsdaglega enda hafi hann mikla orku sem hann þurfi að brenna.

Viðtalið við Rúrik má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist