Mesta varnarleysi foreldra ef börnin eiga ekki vini

Kristborg Bóel.
Kristborg Bóel. Ljósmynd: Úr einkasafni

Þættirnir Vinátta hófust í útsendingu í sjónvarpi Símans fyrir tveimur vikum. Kristborg Bóel er ein af þeim sem áttu hugmyndina að þáttaröðinni en í henni er skyggnst inn í fjölda vinasambanda, allt frá æskuvinum á grunnskólaaldri til eldri borgara. Í hverjum þætti koma nýir viðmælendur og sérfræðingar við sögu og sjónum er beint að ólíkum viðfangsefnum innan vináttunnar. Kristborg mætti í viðtal í morgunþáttinn Ísland vaknar og ræddi þar við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel um þættina og vináttuna sjálfa.

Ljósmynd/Skjáskot/Sjónvarp Símans

„Þegar við fórum að skoða þetta, hugmyndin kviknaði bara á sólríkum degi í maí 2019 á kaffihúsi með vinkonu minni. Ég sagði að mig langaði að gera meira sjónvarp eftir að ég var búin að skila af mér þáttum sem heita Ást. Inn koma vinkonur á kaffihúsið ekki deginum eldri en 85 ára og þær áttu svo ofsalega fallegt samband og ein fór fyrir hópnum og sagði: „Stelpur, eigum við að fá okkur hvítvín?“ og María vinkona mín horfði á mig og sagði bara: „Taktu þetta!“ segir Kristborg Bóel.

Kom á óvart hvað vinátta var vítt hugtak

„Þannig að ég á í rauninni ekkert í þessari hugmynd, það er María vinkona mín. En það sem ég geri er að fara með hana á borðið til Pálma í Símanum og segi: „Mig langar að gera þætti um vináttu.“ Ég fékk Saga Film með mér í lið og unnum við hugmyndina áfram þar og einmitt, hvað er vinátta? Þá vorum við með eitt orð á tússtöflunni sem var bara vinátta og við fórum að skoða hvað það í rauninni er. Það sem kom okkur á óvart er hvað þetta var ofsalega vítt. Af því að fólk spyr mig í dag: „Um hvað ertu að tala?“ Af því að þetta er bara vinátta og öllum finnst það svo sjálfsagt,“ segir hún.

Vináttan á sér einnig skuggahliðar

En Kristborg Bóel viðurkennir að það séu einnig til skuggahliðar á vináttu og hafi þau aldeilis fengið að kynnast því við tökur á þáttunum.

Meðal annars var tekið viðtal við stúlku sem bauð öllum í bekknum í afmælið sitt en aðeins tveir mættu.

„Ég er nú ekki sérfræðingur í eineltisfræðum og ég bara veit ekki hvað það er sem gerist. En ég sem móðir fjögurra barna hugsa alltaf að ég myndi frekar vilja að þau væru að brjóta rúður einhvers staðar en vera félagalaus. Því þú treður ekki börnunum upp á önnur börn og ég held að þetta sé mesta varnarleysi foreldra; ef börnin manns eiga ekki vini,“ segir hún.

Þá segir Kristborg Bóel samfélagsmiðlana flækja hlutina enn frekar í dag enda eigi börn auðveldara með að láta ýmislegt flakka þar.

Hvar liggur línan á milli þess að vera uppalandi og vinur?

Í þáttunum skoðuðu þau einnig vináttu á milli foreldra og barna og reyndu að komast að því hvar línan liggur á milli þess að vera uppalandi og vinur.  Þá skoðuðu þau einnig vináttu á milli systkina en talið er að systkini geti átt mjög djúpt vinasamband, ekki vegna sameiginlegs erfðaefnis heldur vegna þess að þau ganga í gegnum hlutina saman.

Það sem Kristborgu Bóel fannst áhugaverðast við vinnslu þáttanna var hvað vinátta er í rauninni vítt og stórt hugtak.

„Við komumst ekki yfir allt sviðið og alls ekki eins djúpt og við vildum en auðvitað líka hvað þetta skiptir okkur öll miklu máli. Við þráum öll að vera séð og viðurkennd,“ segir hún.

Viðtalið við Kristborgu Bóel má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist