Hundurinn Hinckley er fyrirmyndarbarnapía

Ljósmynd/Skjáskot/Instagram

Hundar og lítil börn eru um það bil það krúttlegasta sem netið hefur upp á að bjóða. Saman sprengja þau hreinlega krúttskalann, en skemmtilegt dæmi um það er hundurinn Hinckley og ungbarnið Teddy.

Hinckley, sem er af tegundinni Golden Retriever, er búsettur í Boston í Bandaríkjunum ásamt fjölskyldu sinni. Hann var einungis ársgamall þegar eigendur hans eignuðust sitt fyrsta barn, Tedda litla.

Hundurinn hélt í fyrstu að litla barnið væri leikfang einungis fyrir sig, en áttaði sig þó fljótt á aðstæðunum. Frá því að Teddi var einungis nokkura daga gamall hefur Hinckley passað upp á hann og vakað yfir honum meðan hann sefur.

Móðirin, kona að nafni Whitney, segir að Hinckley sé heillaður af öllu sem Teddi gerir og hann sjái ekki sólina fyrir honum. Foreldrarnir höfðu í byrjun áhyggjur af því hvernig hundurinn tæki litla barninu, en nú gæti Hinckley ekki verið hamingjusamari, eins og sjá má á ofurkrúttlegum myndum og myndböndum sem fjölskyldan hefur birt á instagramreikningi hundsins.

Þau segjast hlakka mikið til að Teddi litli verði eldri og geti leikið við hundinn og þetta virðist svo sannarlega vera vinátta sem er komin til að vera.

Frétt frá Tanksgoodnews.

 

mbl.is