Framleiðir húsgögn úr notuðum matprjónum

Ljósmynd:ChopValue

Húsgagnafyrirtækið Chopvalue fann heldur betur frumlega og byltingarkennda lausn til þess að vera vistvænt í hönnun, en það endurnýtir notaða matprjóna til þess að búa til húsgögn.

Stofnandinn Felix Böck var doktorsnemi í University of British Columbia og árið 2016 komst hann að því í rannsóknum sínum að um 100 þúsund pör af matprjónum færu í ruslið daglega í Vancouverborg.

Út frá þessu fór hann að hugsa um sniðugar leiðir til þess að endurnýta prjónana og hefur fyrirtækið búið til húsgögn, litla sniðuga hluti, veggskraut, náttborð og fleira.

Ljósmynd:ChopValue

Böck er með 40 einstaklinga í vinnu hjá sér og notast hann við sérstakar gufu- og pressuvélar við vinnslu. Hingað til hefur fyrirtækið endurnýtt að minnsta kosti 32 milljón pör af matprjónum!

Böck og kærasta hans hafa hvatt veitingastaðaeigendur til þess að vera með sérstaka endurvinnslutunnu fyrir matprjóna og eru mörg fyrirtæki farin að tileinka sér það. Hundruð veitingastaða í Norður-Ameríku eru nú komin í samstarf við Chopvalue og starfsfólk fyrirtækisins kemur og sækir notuðu prjónana gegn vægu gjaldi.

Böck vonast til þess að þróa þetta enn lengra og ætlar sér að setja upp litlar endurvinnsluverksmiðjur víða um heim sem geta endurnýtt trjávið á borð við matprjóna beint frá stöðum í kring, án þess að þurfa að treysta á stærri dreifingarkeðjur. Vistvænt, sniðugt og mjög smart!

Frétt frá Goodnewsnetwork.

 

mbl.is