Giftu sig eftir 70 ára aðskilnað

Ljósmynd/Skjáskot/CBC

Flestallir muna vel eftir fyrstu ástinni, sama hversu alvarleg hún var. Þó að fólk haldi hvort í sína áttina og finni stærri ást síðar meir þá finna sumir strax fyrir lífstíðartengingu.

Parið Fred Paul og Florence Harvey kynntust fyrst sem unglingar þar sem þau ólust upp í Kanada. Þau voru kærustupar í tvö ár áður en leiðir þeirra skildi og flutti Paul frá heimabæ þeirra til stórborgarinnar Toronto.

Nokkrum árum síðar fann hann fyrir miklum söknuði til Florence og fór aftur heim til að reyna að ná tali af henni. Því miður var hún þá flutt annað og hann hafði misst tækifærið.

Árin liðu og þau héldu áfram með lífið hvort í sínu lagi, giftust öðrum og eignuðust fjölskyldu. Nú fyrir nokkrum árum höfðu þau bæði misst maka sinn og eftir að Fred varð ekkill hringdi Florence í hann til þess að votta samúð sína, hún hafði gengið í gegnum svipaða lífsreynslu og sagðist vera til staðar fyrir hann.

Upp frá því héldu þau áfram að tala saman í símann, fyrst vikulega en áður en þau vissu af voru þau farin að spjalla klukkutímum saman á hverjum degi og fundu bæði fyrir sterkri tengingu. Florence fór og heimsótti Fred til Toronto eftir 70 ára aðskilnað og urðu þau ástfangin á ný.

Þegar Fred heyrði að Florence væri í bænum var klukkan orðin hálfellefu að kvöldi til en hann stökk fram úr rúminu og klæddi sig upp, fór svo út og skrifaði „Velkomin Florence“ með krítarlitum á bílaplanið hjá sér.

Þegar Florence svo mætti gekk hann að bíl hennar, faðmaði hana og kyssti á kinnina, tók í hönd hennar og sagði að á þeirri stundu hefði hann áttað sig á því að hún hefði eignast hjarta hans. Síðan þá hafa turtildúfurnar verið óaðskiljanlegar. Svo fallegt!

Frétt frá Tanksgoodnews.

 

mbl.is