Samsung S21 væntanlegur til landsins 29. janúar

Ljósmynd/Skjáskot/Samsung

Í Græjurannsóknarstofu Elkó með Loga og Sigga ræddu þeir við Val Hólm um nýjasta Samsung-símann sem væntanlegur er til landsins 29. janúar næstkomandi.

Samsung var á dögunum með kynningu á símunum og segir Valur stóra málið í dag vera myndavélina.

„Þetta er besti örgjörvi sem þeir hafa nokkurn tíma komið með, besti skjár sem þeir hafa nokkurn tímann komið með, besta rafhlaða sem þeir hafa nokkurn tímann komið með og svo er þetta besta myndavél sem þeir hafa nokkurn tíma komið með. Rafhlaðan er risastór og þetta er snjallrafhlaða, og við elskum allt sem er snjallt. Snjallrafhlaða virkar sem sagt þannig að hún lærir á notkun þína í símanum og lagar sig að henni yfir daginn til þess að spara sem mesta orku. Myndavélin í últrasímanum, dýrasta módelinu, er 108 megapixlar, sem er bara eitthvert rugl,“ segir Valur.

Ljósmynd/Skjáskot/Samsung

Hann segir að ætlun Samsung með útgáfu símans sé að fólk þurfi ekki lengur DSLR-myndavélar. Það eigi að geta náð dýptinni og skerpunni með últramódelinu.

Komnir í samstarf við Google og Microsoft

„Myndbandsupptakan býður upp á 8k en þeir bjóða upp á að þjappa skránum saman. Þú getur fengið bara hráar skrár ef þú ætlar að vinna með þær en svo eru þær líka samþjappaðar. Þeir eru líka komnir í samstarf, sem er alveg geggjað, við Google og Microsoft. Þá ræður þú hvort þú notar One drive frá Microsoft eða Google docs frá Google, þannig að neytandinn fær núna valmöguleika. Hann er ekki neyddur í einhvern einn veg,“ segir Valur.

Margir Samsung-notendur hafa áður kvartað undan myndgæðum í gegnum forrit í símunum en Valur segir það nú vera á enda.

„Núna eru þeir komnir í beint samstarf við svona þriðja-partís-öpp eins og Instagram, Snapchat og TikTok svo maður lendir ekki lengur í þessu. Þú færð bara 100% myndgæðin sem eiga að vera í þessum síma í þessum „öppum“ líka sem Apple er bara búið að vera með,“ segir hann.

Símarnir eru komnir í forsölu og verður S21 á tæpar 159.000 krónur, S21+ á 194.000 krónur og Últra á 229.000 krónur.

Viðtalið við Val í Græjurannsóknarstofunni má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist