Páll Óskar sá eini sem kom til greina

Ljósmynd/Skjáskot úr myndbandi Páls Óskars og Birnis

Þeir Páll Óskar og Birnir gáfu út lagið Spurningar í gær en Birnir samdi lagið ásamt Þormóði Eiríkssyni. Samstarf Páls og Birnis hefur komið mörgum á óvart enda koma þeir hvor úr sinni tónlistaráttinni. Páll Óskar og Birnir mættu í Síðdegisþáttinn til Loga Bergmanns og Sigga Gunnars og ræddu við þá um samstarfið, lagið og lífið fyrir tónlistarfólk í Covid.

Vonaði að Palli tæki skilaboðunum vel

Birnir segir samstarfið hafa komið til eftir að hann ákvað að senda „demó“ af laginu til Palla. Honum hafi ekki þótt neinn annar tónlistarmaður koma til greina og vonaði því að Palli tæki vel í fyrirspurnina.

Ljósmynd/Skjáskot úr myndbandi Páls Óskars og Birnis

„Ég sem sagt skrifaði og samdi þetta lag með Þormóði vini mínum en við erum búnir að vinna svolítið mikið saman. Ég sendi þetta „demó“ á Palla og hann elskaði það, held ég. Við erum allavegana hér,“ segir Birnir.  

„Já þetta var alveg þannig og ég virka líka þannig að ef ég fer ekki í gang á fyrstu tíu sekúndunum þá fer ég ekkert í gang. Ég næ ekki að knýja mig upp í eitthvað,“ segir Palli sem féll strax fyrir laginu. Hann bætir við: „Eins og sést og heyrist á þessu lagi og þessu myndbandi. Allir, bæði við sem vorum að vinna lagið og svo „crewið“ í þessu myndbandi, allir og hver einasti kjaftur var bara að gera það sem þeir eru bestir í.“

Ljósmynd/Úr tökum á myndbandinu

Lagið tikkaði í öll boxin

„Það var bara enginn annar og þetta var líka bara svolítið Pallalegt. Palli á 100% heima í þessu lagi. Ég hefði séð eftir því að prófa það ekki,“ segir Birnir og á þar við að hafa sent Palla skilaboð.

„Þetta var hárrétt lesið hjá þér og í kjölfarið fór ég að hlusta aðeins á mitt eigið popp, hvað maður er búinn að bauka síðan árið 1993 og flestallar melódíurnar sem ég syng, það er nefnilega smá svona tregi í þeim og svo bæti ég einhverju „bíti“ við. Þannig að þessar melódíur eru svolítið ítalskar ef eitthvað er. Ég er náttúrlega fæddur og uppalinn á ítölsku tenórdívu-heimili og laglínan í þessu lagi er nefnilega svona tregasæt og ítölsk og eins og klæðskerasniðin fyrir mig. Svo er líka mjög mikilvægt fyrir mig þegar ég er að gera popp, að textarnir þurfa að vera skýrir, einfaldir en samt sterkir. Bingó – þetta lag tikkar í öll þau box,“ segir Palli.

Lagið var tekið upp í nóvember árið 2019 og myndbandið var tekið upp síðasta sumar.

„Við tókum þá ákvörðun að gefa þetta ekki út árið 2020 bara oj ekki, frekar að nota viðspyrnuárið 2021 í að koma með svona fallegt lag,“ segir Palli.

Ljósmynd/Skjáskot úr myndbandi Páls Óskars og Birnis

Mikilvægt að hafa gaman

„Fyrst og fremst finnst mér þetta vera rosalega skemmtilegt og það þarf að vera og er mjög mikilvægt, í öllu þessu ferli að gera tónlist og myndbönd, að það sé skemmtilegt. Ekki að það sé eitthvað erfitt. Og mér fannst geðveikt gaman að gera lagið með Palla og vídeóið og úr því kom bara eitthvað geggjað. Ég fann það þegar ég var að gera þetta lag að Palli væri bara ... Það var bara einn gaur sem getur þetta og sú tilfinning var rétt. Maður á stundum að treysta tilfinningunni og sjá hvert það fer,“ segir Birnir.

„Það má líka alveg taka það fram að þú, Birnir, ert ansi sterkur textasmiður. Þú ert algjörlega með þetta, þú getur bæði túlkað sársauka og gleði og efasemdir og allt. Þú nærð að ýta á alla takkana og Þormóður Eiríksson, sem er að semja þetta lag með þér og pródúserar; ég vil meina að hann sé Gunnar Þórðarson/Jóhann Jóhannsson sinnar kynslóðar. Þessi snillingur er mættur á svæðið og kominn til að vera,“ segir Palli.

Viðtalið við Pál Óskar og Birni má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist