Áherslan ekki á útlitsþráhyggju eða afreksþráhyggju

Hera Björk Þórhallsdóttir.
Hera Björk Þórhallsdóttir.

Heimildarmyndin Þung spor eftir Ingu Lind Karlsdóttur þar sem fylgst var með bataferli og upprisu söngkonunnar Heru Bjarkar Þórhallsdóttur eftir magaermaraðgerð kom út á Sjónvarpi Símans í gær.

Hera Björk, sem er ein þekktasta söngkona þjóðarinnar, mætti í Síðdegisþáttinn til Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í gær og ræddi þar við þá um aðdraganda aðgerðarinnar, úrvinnslu sína eftir hana og breytinguna á lífinu. Hera segir Ingu Lind og hennar fólk eiga algjöran heiður af nafni myndarinnar sem henni þyki mjög viðeigandi.

Ljósmynd/Skjáskot/Sjónvarp Símans

„Það er það sem þetta er alveg frá upphafi, en þau verða léttari. Svo er þetta bara eins og ef maður er að labba upp Hverfjall í Mývatnssveit. Tvö skref áfram og svo eitt aftur á bak í sandinum og þetta er það og þetta á að vera það. Af því að maður lærir alltaf mest á leiðinni niður sandinn. Og svo nýtur maður þess að fara áfram og svo bölvar maður þegar maður fera aftur á bak en þá lærir maður,“ segir Hera Björk.

Ræddi ákvörðunina ekki við einn eða neinn

Inga Lind fylgdi Heru Björk eftir í þrjú ár og fékk að fylgjast með öllu ferli hennar. Strax í upphafi krafðist Hera þess að myndin yrði tekin upp á löngum tíma enda þótti henni ekki líklegt að breyting á líðan hennar og framfarir yrðu marktækar fyrr en á þriðja ári eftir aðgerð.

„Þegar ég tók þessa ákvörðun gerði ég það bara í þögn og hljóði og alveg ein með sjálfri mér og ræddi þetta ekki við einn eða neinn nema bara lækninn minn og sjálfa mig. Þá fannst mér þetta svo brjálæðislegt. Ég hugsaði: Hvernig get ég get þetta einhvern veginn og verið bara æðislega sjálfselsk á það að deila þessu ekki, að „eiga“ þetta ekki? Af því að ég veit það og ég er svo meðvituð um að ég er þekkt manneskja og það veitir mér vald til þess að miðla þannig að ég fór bara beint þangað,“ segir Hera.

Vildi ekki að þetta snerist um útlits- eða afreksþráhyggju

Hera segir það ekki hafa verið erfitt að hafa fylgdarlið með sér í gegnum ferlið enda hafi hún reglulega fengið góðan frið inn á milli.

„Þetta voru tímabil sem við tókum og við vissum aldrei hvaða tímabil það væru. Við bara fundum að við værum komin á ákveðinn stað í ferlinu og ég hafði frá einhverju að segja. Svo var ég á milli að taka dagbókarfærslur. Mér fannst þetta vera svo mikilvægt í stóru myndinni og ég vissi að ég ætti ekki eftir að verða svona: „Já ég er bara komin í bikiní og ég er bara að fara að keppa í sexþrautinni.“ Það var ekki að fara að gerast og ég vildi heldur ekki að fókusinn yrði á því. Á útlitinu og svona útlitsþráhyggju eða afreksþráhyggju. Ég vissi að ég ætti eftir að misstíga mig og vera með hor og slef grenjandi á fullt af stigum í ferlinu, sem er búið að vera að gerast, og ég held að þannig sé 99,9% saga okkar sem eigum í þessu lífstíðarverkefni,“ segir hún.

Hera segir ákvörðunina um að fara í aðgerð hafa verið stóra og erfiða, sérstaklega vegna þess að í mörg ár hafi fólk bent henni á slíkar aðgerðir.

„Og ég bara neinei, fussaði og sveiaði sko af því að fyrst og síðast fannst mér ég bara hljóta að geta þetta ein og sjálf og óstudd eins og bara flest annað sem ég tek mér fyrir í lífinu. En þegar ég virkilega horfði í baksýnisspegilinn og sá að ég var orðin sko fimmfaldur heimsmeistari í kílóajójói fann ég bara að þetta er ekki titill sem ég vil vera stolt af að bera og sá að ég var enginn meistari þarna og hef enga þörf fyrir að vera meistari þarna. Ég vil bara fá að líða vel, ég vil lifa lengi, kynnast börnunum mínum þegar þau eru stór og barnabörnunum. Ég vil geta beygt mig eftir bolta og ég þarf að komast í splitt ... því ég hef komist í splitt síðan ég var þriggja ára,“ segir Hera.

Missti af mörgum tækifærum í lífinu vegna þyngdarinnar

Hera viðurkennir að þyngd hennar hafi haft áhrif á mörg tækifæri í lífinu. Bæði hafi henni verið neitað um hlutverk vegna þyngdar en einnig hafnaði hún sjálf mörgum hlutverkum og sagðist í gríni ekki passa í búningana. Síðan hafi hún farið heim og grátið í koddann.

„Ég hélt aftur af mér og svo þetta að það er bara óþægilegt að vera með manneskju uppi á sviði og henni líður illa og það er enginn að fara að kaupa miða á það. Þannig að ég ber fulla ábyrgð á því að ég missti af þessum tækifærum öllum. En ég fékk önnur frábær,“ segir Hera og vísar þar meðal annars til þátttöku sinnar í Eurovision.

Hera Björk flutti lagið Je ne sais quoi í Eurovision …
Hera Björk flutti lagið Je ne sais quoi í Eurovision keppninni í Noregi árið 2010. Úr einkasafni

Mikilvægt að hrósa

Hera segist hafa fengið alls konar viðbrögð frá fólki eftir aðgerðina. Bæði hafi þau verið jákvæð og neikvæð.

„Viðmótið er alls konar. Sumum bregður, sumir verða reiðir. Þeir ætla ekki að vera reiðir og ég hef alveg verið þarna. Ef ég hitti einhvern og viðkomandi var einu sinni með mér í framkvæmdastjórn fitubollufélagsins og allt í einu bara búinn að stimpla sig út og orðinn eitthvað „fab“ þá varð ég reið. Ekki við viðkomandi heldur við sjálfa mig,“ segir hún.

Hera segir þó mikilvægt að fólk sýni viðbrögð en það þurfi einfaldlega að passa sig á því sem það segi.

„Við eigum aldrei að hætta að hrósa, við þurfum bara að vanda okkur og hugsa þetta út frá viðfangsefninu sem er fyrir framan okkur,“ segir hún.

Viðtalið við Heru má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is