Söngleikur um Ratatouille safnar fyrir atvinnulausa leikara

Ljósmynd/Skjáskot/Youtube

Flestir þekkja teiknimyndina Ratatouille þar sem hugrakka rottan Remy lætur drauminn um að verða kokkur rætast. Myndin hefur vonandi veitt mörgum áhorfendum innblástur til þess að elta drauma sína.

Nú síðast tókst söguþræðinum að hvetja hóp leikara til þess að setja hann á svið sem söngleik og í leiðinni safna peningum til styrktar sjóði leikara (e. the Actors fund), þar sem margir leikarar hafa glímt við atvinnuleysi lengi sökum lokana út af Covid-19.

Hugmyndin að söngleiknum kviknaði fyrst síðastliðið haust hjá 26 ára gömlum kennara að nafni Emily Jacobsen, sem er að eigin sögn forfallinn aðdáandi Ratatouille. Þegar hún komst að því að Disney World í Flórída ætlaði að setja upp sérstaka Ratatouille-sýningu samdi hún ástarballöðu til rottunnar Remy sem hún deildi á TikTok.

Myndbandið sló í gegn og í kjölfarið fóru fleiri aðdáendur teiknimyndarinnar að deila myndböndum tileinkuðum Ratatouille. Út frá því varð til Ratatouille-tiktoksöngleikurinn.

Framleiðslurisinn Disney varð mjög hrifinn af þessu og gaf grænt ljós á Seaview Productions að framleiða söngleik í fullri lengd sem styrktarsýningu fyrir sjóð leikara.

Sýningin var frumsýnd 1. janúar, var sett upp nokkrum sinnum fyrstu dagana og aukasýningu bætt við 10. janúar. Þetta sló heldur betur í gegn og tókst þeim að safna meira en einni milljón dollara fyrir atvinnulausa leikara.

Leikstjóri sýningarinnar, Lucy Moss, sagði mikilvægt að styðja við listamenn á tímum sem þessum og færa þeim von um að það væri enn hægt að skapa ný verk og það væri rými fyrir nýsköpun.

Hún segir enn fremur að ólíklegt sé að þessi hugmynd hefði orðið að veruleika ef allir hefðu ekki verið fastir heima fyrir.

Boðskapur söngleiksins er einfaldlega að við getum orðið krafturinn sem skapar eitthvað nýtt og draumar sem virðast ómögulegir geta ræst.

Frétt frá: Goodnewsnetwork.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist