Fólk með óunna áfallasögu getur leitað í rangan félagsskap

Ljósmynd/Unsplash/Alex Knight

Anna Lóa er með Hamingjuhornið alla mánudaga í morgunþættinum Ísland vaknar. Þar ræðir hún við þau Ásgeir Pál, Jón Axel og Kristínu Sif um hina ýmsu hluti sem hægt er að gera til þess að efla hamingjuna.

„Ég var að horfa á heimildarmynd á föstudaginn sem heitir „Love wins over hate.“ Ég rambaði á hana og hún er um sex einstaklinga sem tilheyrðu öfgahópum. Til dæmis eins og öfgahóparnir sem við erum að horfa upp á í Bandaríkjunum núna, trúarlegir öfgahópar, Ku Klux Klan og svo framvegis en þetta eru einstaklingar sem komu sér út úr þessum hópum líka og eru að segja sögu sína. Það var svo áhugavert að hlusta á þetta af því að við getum lært ótrúlega mikið af þessu. Til að byrja með þá töluðu þau öll um að ástæðan fyrir því að þau fóru inn í svona hópa er að þau áttu það öll sameiginlegt að vera með óunna áfallasögu hvort sem það var vanræksla, ofbeldi, alkóhólismi, andleg veikindi á heimilinu, fátækt eða jafnvel ofdekur sem tengdist þá ríkidæmi. Það sem þau fundu var að það var ótrúlega mikil reiði inn í þeim og þau fara þarna inn í hóp þar sem að allir eiga það sameiginlegt að búa yfir svona mikilli reiði og hatur verður svona sameiningartákn hópsins. Þau lýstu því að hatrið varð bara eins og eiturlyf, þau urðu háð því á sama tíma og það var að éta þau að innan,“ segir Anna Lóa og viðurkennir að umræðan sé kannski ekkert rosalega sólrík en mjög mikilvæg samt sem áður.

Anna Lóa í Hamingjuhorninu.
Anna Lóa í Hamingjuhorninu.

Áttuðu sig á því að þetta var ekki það sem þau vildu

„Þau komust út úr þessu með því að hleypa góðmennskunni inn. Einn lýsti því að þegar hann varð faðir og upplifði þessa skilyrðislausu ást frá barninu sínu byrjuðu hlutirnir að bráðna í kringum hann. Einn sem hafði verið alinn upp í svona trúarofstæki hann prófaði að þróa með sér ákveðna samkennd af því að þau töluðu um það að það vantaði alla samkennd. Þannig að hann prófaði að gefa fólki sem hafði alið upp í honum að hann ætti að hata, hann prófaði að sýna þeim samkennd. Þannig byrjaði hann að þróa með ákveðna góðmennsku sem gerði það að verkum að hann áttaði sig á því að þetta líf sem hann lifði var ekki það sem hann vildi,“ segir Anna Lóa.

Hvert sem litið er í samfélaginu virðist vera til fólk sem nærist á því að hata, nærist á neikvæðni og er í stanslausri baráttu við kerfið, allt og alla. Anna segir að ástæðuna fyrir slíku megi rekja til óunninnar áfallasögu fólks.

„Segjum sem svo að þú alist upp við áföll og þú ert með óunna áfallasögu sem gerir það að verkum að þú ferð út í lífið og þér finnst þú hvergi „fitta“ inn. Þú færð ekki aðstoð þannig að þú ferð með þessar vondu tilfinningar út í lífið og reynir að máta þig við aðra og við hverja mátarðu þig? Sambærilega aðila,“ segir hún.

Mikilvægt að foreldrar sýni góða fyrirmynd


Anna Lóa segir mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir því hvað börnin þeirra og sérstaklega unglingar eru að ganga í gegnum.

„Bara það að þú farir með barnið þitt úr einum skóla í annan, hverjir eru það sem vilja ná barninu þínu inn í sinn hóp? Það er veikasti hlekkurinn sem vill styrkja sig. Segjum sem svo að þú farir með barnið þitt í nýjan skóla á unglingsárunum þar sem er mjög mikil klíkumyndun að þá er til dæmis bara þetta að þú sért meðvitaður um það að þarna inni eru hópar sem að eru akkúrat eins og ég var að lýsa áðan. Þarna eru kannski börn með áfallasögu sem er kannski ekki verið að vinna með og þau reyna að styrkja sinn hóp. Þannig að það sem við ættum alltaf að hafa í huga að þegar maður finnur að börnin mans eru hætt að hafa skoðanir á hlutunum og eru farin að segja oftar og oftar að þeim sé alveg sama og að þau vilji reyna að „fitta“ inn í hópinn, sem við gerum svolítið oft á unglingsárunum að þá þurfum við foreldrarnir að vera rosalega meðvituð. Ef við byrjum að gera þetta á unglingsárum að þá komumst við ekki út úr því og hvað gerist, við sveiflumst frá því að vilja gera annaðhvort öllum til geðs eða að veraa á móti öllu og öllum,“ segir hún.

„Þetta byrjar alltaf með þessari meðvitund um hvar þú ert. Ef við finnum að við erum alltaf í samanburði við aðra, alltaf týnd og að gera öðrum til geðs að þá ættum við að taka því alvarlega. Við ættum líka að rækta góðmennskuna, kærleikann og þróa samkennd,“ segir hún.

Anna Lóa segir mikilvægt að átta sig á því að slík hegðun byrji heima við og því sé mikilvægt að vera góð fyrirmynd fyrir börnin.

„Hvernig við nýtum kærleikann sem ætti að vera drifkrafturinn, að það byrjar heima. Hvernig við  tölum um aðra og hvernig börnin okkar heyra okkur tala um aðra. Ef við myndum bara spyrja okkur: „Er ég sátt í eigin skinni eða er ég alltaf að leitast eftir að „kópíera“ aðra eða er ég að leitast eftir því að láta aðra finna hvað ég er betri þannig að ég er að láta aðra pirra mig sem mér finnst kannski vera að gera það sem ég myndi vilja vera gera.“ Það þarf að efla sjálfan sig og efla kærleikann í lífi sínu og gefa fólki sem er öðruvísi en við tækifæri og vera ekki alltaf að hugsa hvar er ég í samanburði við aðra heldur að hugsa þetta út frá heildinni.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Önnu Lóu í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: 
mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist