Binni er „slæmur strákur sem gerir góða hluti“

Brynjólfur Löve eða Binni Löve eins og hann er oftast kallaður er með um 18 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum Instagram.  Hann mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar á dögunum og ræddi þar við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel um hvað það þarf að gera til þess að ná vinsældum á samfélagsmiðlum og tók hann Jón Axel í sérstaka kennslu um efnið.

Binni segist í raun ekki hafa eitt ákveðið svar við því hvers vegna vinsældir hans hafi orðið jafn miklar og raun ber vitni og segir hann það í raun hafa gerst svolítið óvart.

„Ég var bara að gera mína hluti, ferðast mikið og er á brimbretti,“ segir hann.

Slæmur strákur sem gerir góða hluti

Aðspurður að því hvort hann sé svokallaður „bad boy“ svarar Binni því játandi.

„Já en ég er samt „bad boy doing good“ það er það sem skiptir máli. Svo finnst mér gaman að taka myndir og fólki finnst gaman að sjá fallegt efni held ég. Ég held að ég sé einn af þeim fáu sem er svona svolítið í öllu og það er það sem ég elska. Ég nenni ekki að festa mig á einhverri einni línu,“ segir Binni.

Jón Axel segist vera með um 1400 fylgjendur á Instagram reikningi sínum og spyr hann Binna að því hvað hann þurfi að gera til þess að fá tíu þúsund fylgjendur án þess að sýna á sér rassinn.

„Sko það er held ég auðveldasta leiðin að gera það, þannig að ég myndi alveg mæla með því,“ segir Binni og hlær. Hann bætir svo við: „En það er bara að vera duglegur að pósta efni og það eru í rauninni svona þrír hlutir. Annað hvort þarftu að vera myndarlegur, fyndinn og skemmtilegur eða að gera eitthvað áhugavert þannig að ef þú ert að tikka í eitthvað af þessum boxum að þá ættiru nú að stækka eitthvað, ef þú tikkar í öll boxin þá ertu náttúrulega á grænni grein.“

Persónulegt er númer eitt, tvö og þrjú

Binni segist sjálfur fylgja öllum þeim sem honum þykja vera gera áhugaverða hluti og viðurkennir að hann sé nýbyrjaður að fylgja Jóni. Hann ákveður því að gefa honum góð ráð til þess að stækka fylgjenda hóp sinn.

„Þú átt að vera að nota þinn persónulega miðil til þess að auglýsa hina miðlana og vera duglegur í „stories.“ Þú átt að vera að pósta kannski þremur póstum í viku í „feedið“ og svo áttu að vera að sýna þig bara sveittan í leðursvuntu að hefla einhverja eikardrumba. „Feedið“ er meira notað í fagurfræðilega hluti og þær þurfa alveg að hafa ákveðinn „standardD en í „story“ er meira flæði og þú getur látið hvað sem er þar inn. Persónulegt er númer eitt, tvö og þrjú í dag,“ segir Binni.

Hann viðurkennir þó að hafa þótt það óþægilegt í byrjun að kveikja á myndavélinni á Instagram og tala.

„Maður þarf að venjast því og ég viðurkenni það alveg að ég byrjaði á Snapchat og þá var miklu auðveldara að vera að tala í myndavélina. Instagram er með hærri „standarda“ og það er svolítið kannski meira vesen að tala þar, en það er það sem virkar,“ segir hann.

Binni viðurkennir það að mikil vinna liggi á bakvið samfélagsmiðlana og að því fleiri fylgjendur og meira áhorf sem fólk sé með að þar fáist meiri peningar fyrir hverja auglýsingu.

„Já þetta er það og stærstu stjörnurnar úti í heimi eru bara með aðstoðarmann og ljósmyndar og fólk sem að sér um þetta fyrir það. Jafnvel pósta fyrir þau og allt,“ segir hann.

Viðtalið við Binna má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist