„Maður er ennþá að átta sig á því að þetta hafi gerst“

Ljósmynd/Skjáskot/Youtube

Leikarinn og uppistandarinn Villi Neto mætti til þeirra Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í Síðdegisþáttinn og ræddi þar við þá um hlutverk sitt í Áramótaskaupinu í ár ásamt fleiru. Villi segir nafnið Neto vera portúgalskt ættarnafn en þar bjó hann ásamt fjölskyldu sinni allt til ársins 2007 þegar hann flutti til Íslands. Villi hefur lengi verið vinsæll á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur gert hina ýmsu „sketsa“ þætti með allskonar gríni en segist aðspurður aldrei hafa trúað því að hann fengi hlutverk í skaupinu sjálfu.

„Ég er mjög glaður með þessar móttökur, þetta er eiginlega frekar ótrúlegt. Ég hefði aldrei búist við því að leika í skaupinu sjálfur þannig að maður er ennþá að átta sig á því að þetta hafi gerst,“ segir Villi sem fékk óvænt símtal frá Reyni Lyngdal, leikskjóra skaupsins.

„Þetta kom smá á óvart því ég fékk smá símtal frá Reyni Lyngdal og svo allt í einu var ég bara komin á hópspjall með honum og Hugleiki Dagssyni og þar var verið að pæla í þessum skets,“ segir hann.

Ljósmynd/Skjáskot/Youtube

Villi segist strax hafa tengst umfjöllunarefninu og þessu með að „halda niðri í sér andanum.“

Aðspurður út í það hvernig hann fór að því að halda góðu tengslaneti við Ísland á meðan hann bjó sjálfur úti í Danmörku í leiklistarnámi segist Villi hafa verið heppinn með það að vinsældir „sketsa“ hans héldu áfram þrátt fyrir að hann væri ekki á Íslandi.

„Ég var svo heppinn að það var fólk að fylgjast með mér á netinu og ég hélt áfram að gera „sketsa“ á meðan ég var úti í Danmörku svo ég myndi ekki missa tengslin við ísland. Ég hef alltaf verið á því að gera „sketsa“ á íslensku og ég hef aldrei viljað gera „sketsa“ á ensku og vera eitthvað alþjóðlegur. Mér hefur bara alltaf fundist skemmtilegast að gera íslenska „sketsa“. Svo þegar ég kom til baka að þá var svona hópur sem var tilbúinn að taka við mér í gríninu.

Þegar Villi kom heim fór hann strax að halda uppistönd og gerir hann það enn í dag eð hópnum sínum VHS. Um þessar mundir hafa þau verið að prófa nýtt efni sem þau kalla Nýtt ár, nýtt grín.

Viðtalið við Villa má hlusta á í  heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:mbl.is