„Hvað ef hlutirnir verða aldrei aftur eins og þeir voru“

Morgunblaðið/Eggert

Unnur Magnúsdóttir frá Dale Carnegie mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar og ræddi þar við þau Kristínu Sif, Jón Axel og Ásgeir Pál um námskeiðið, hvernig þau vinna með fólki og hvernig fólk getur tekið stöðuna á sér.

„Við hjá Dale Carnegie erum rosalega mikið að tala við fólk allan daginn. Hvort sem það eru einstaklingar eða stjórnendur í fyrirtækjum þá erum við alltaf að tala við fólk. Við fórum að heyra það í sumar og haust að fólk var svolítið í biðstöðu. Allir að bíða eftir því hvað mætti gera og margir að biða eftir að gamla starfið þeirra kæmi aftur og svona já allir í biðstöðu. Við vitum það náttúrlega að ef við bara bíðum og gerum ekkert þá í fyrsta lagi breytist ekkert þannig að þetta var ekki góð staða. Þannig að við fórum svona að hugsa: hvað ef hlutirnir verða aldrei aftur eins og þeir voru? Sem er bara alveg ágætlega líklegt, þetta eru alveg rosalega stór tímamót. Það verður örugglega talað um þetta svona fyrir og eftir Covid,“ segir Unnur.

Fólk skilið eftir fylgi það ekki breytingum

„Þegar maður horfist í augu við það að hlutirnir hafa kannski breyst varanlega þarf maður væntanlega aðeins að skoða og hugsa: hver er mín staða í þessum nýja raunveruleika? Hlutirnir eru alltaf að breytast og ef maður fylgir ekki með verður maður náttúrlega skilinn eftir eða líður ekki vel eða bæði. Þannig að við ákváðum að búa til mat þar sem fólk getur aðeins bara tekið stöðuna á sér. Af því að ef við ætlum að breyta einhverju þurfum við fyrst að setja okkur markmið um það,“ segir Unnur og vísar þar til prófs sem einstaklingar geta tekið inni á heimasíðu Dale Carnegie.

Morgunblaðið/Golli

Spurð hvað fólk geti grætt á því að mæta á námskeið segir Unnur það vera alveg ótrúlega margt og ótrúlega misjafnt eftir einstaklingum.

„Við fáum algjörlega flóruna af samfélaginu til okkar. Fólk í öllum þjóðfélagsstigum með alls konar bakgrunn og algjörlega þverskurð af samfélaginu. Allir vilja ná einhverjum auknum árangri en á mismunandi sviðum,“ segir Unnur og minnist á að sjálfstraustið sé það sem fólk vilji aðallega efla.

Mikilvægt að setja sér markmið varðandi samskipti og tjáningu

„Námskeiðið er byggt upp þannig að fólk upplifi sig sterkara, sjái sig í jákvæðara ljósi, treysti sér í fleira og sé kannski tilbúið að fara út fyrir þægindahringinn,“ segir hún.

Þá segir hún einnig mikilvægt að fólk setji sér markmið varðandi samskipti sín og tjáningu við annað fólk.

„Samskipti eru auðvitað hvernig við komum fram við annað fólk og svo þetta með tjáninguna  við erum ekkert endilega að standa upp og halda ræðu. Það er líka fullt af fólki sem vill bara geta staðið upp og sagt skoðun sína,“ segir hún.

Nánara viðtal við Unni Magnúsdóttur hjá Dale Carnegie má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist