Bakka tíu skref og byrja frá grunni eftir meðgöngu

Sigrún Hákonardóttir
Sigrún Hákonardóttir Ljósmynd/Skjáskot/Instagram:Fitbysigrun

Sigrún Hákonardóttir hefur sérhæft sig í meðgöngu- og mömmuþjálfun þar sem hún aðstoðar konur við að koma sér í gott form bæði líkamlega og hugarfarslega. Sigrún mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar þar sem hún ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel um mikilvægi þess að þjálfa sig vel upp frá grunni í stað þess að ofgera sér.

„Áhugasviðið og ástríðan liggur hjá ófrískum konum og konum sem hafa átt börn af því að það eru svo margar breytingar sem hafa átt sér stað og maður þarf að hugsa þetta öðruvísi ef maður ætlar ekki að fara fram úr sér. Það þarf eiginlega að bakka tíu skref og ætla ekki strax að gera eitthvað heldur að vinna í grunninum. Þetta er svipað og ef þú slasar þig á öxl þá finnst þér bara sjálfsagt að fara í sjúkraþjálfun og gera þetta vel frá grunni en svo einhvern veginn þegar maður eignast barn þá ætlar maður bara að koma sér fljótt í form. Maður þarf svolítið að hugsa að þetta séu ákveðin meiðsli eða þannig og að það þarf að vinna sig upp frá grunni til þess að geta síðan farið að gera allt sem mann langar til,“ segir Sigrún.

Konur eru oft konum verstar

Spurð hvort henni þyki mikil breyting hafa orðið á því hvort konur æfi meira á meðgöngu í dag en áður segist Sigrún ekki alveg viss á því.

„Mér finnst aðrar ófrískar konur oft dæma mest; „guð hún má ekki gera þessa æfingu“ eða eitthvað svoleiðis, en það eru svo margar æfingar sem maður getur gert bara svo lengi sem maður passar upp á sig og pælir í grindarbotninum og kviðnum. Þó svo að Sigga geti gert eitthvað er ekkert endilega víst að einhver önnur geti gert það. Maður þarf líka svolítið að passa sig að vera ekki alltaf að dæma. Ég vil meina að konur séu oft konum verstar og maður sér það oft og sérstaklega í þessu. Karlmenn eru oft aðeins einfaldari,“ segir Sigrún og á við að karlmenn séu ólíklegri til þess að dæma hver annan.

„Ég reyni alltaf  skilja hvaðan manneskjan er að koma af því að það hlýtur að vera eitthvað sem hún hefur lent í sem maður þarf svona aðeins bara að „ok, hvernig getur maður nálgast þetta“. Af því að það ætar sér enginn að vera með einhverja árás eða vera vondur. Eða ég held að það séu rosalega fáir sem gera það,“ segir hún.

Sigrún segir hugarfarið skipta miklu máli og kennir hún einnig hugarfarsþjálfun.

„Mér finnst það skipta öllu máli af því að ef þú ætlar að hreyfa þig verðurðu að gera það á heilbrigðum forsendum og þá verður þetta svo langtíma í staðinn fyrir að hreyfa þig til þess að koma þér í form. Þannig að mér finnst hugarfarið vera sko, ef þú ætlar að byrja einhvers staðar þá byrjar þú á huganum,“ segir hún.

Viðtalið við Sigrúnu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist