„Algebra er yndisleg“

Sverrir Bergmann
Sverrir Bergmann

Tón­list­armaður­inn Sverr­ir Berg­mann hóf á dögunum störf sem stærðfræðikennari við Menntaskólann á Ásbrú í hálfu starfshlutfalli. Sverrir hefur undanfarinn vetur starfað sem afleysingakennari í Akurskóla í Njarðvík og í samtali við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars segir hann að líklega hafi sér verið boðin staðan á Ásbrú vegna þess.

„Það þarf bara að koma rétt að mönnum og fara réttu leiðina og þá er þetta bara, finnst mér allavegana, drulluskemmtilegt,“ segir Sverrir sem viðurkennir að hann hafi alltaf haft gaman af stærðfræði.

Hefur alltaf haft gaman af stærðfræði

„Ég var að kenna í afleysingum hérna uppi í Njarðvík í grunnskólanum hérna og ég held það hafi bara spurst út að ég hafi staðið mig ágætlega og svo vantaði kennara þarna upp frá og mér var boðin staðan,“ segir hann.

Sverrir kemur til með að kenna stærðfræði sem kennd er á fyrsta ári í menntaskóla, meðal annars algebru sem mörgum þykir mjög flókin stærðfræði.  

„Algebra er yndisleg, ég meina þið farið tveir út og kaupið ykkur pítsu fyrir einhvern pening og svo þurfið þið að skipta því og svo fékk Logi afslátt en ekki Siggi og hvað gerið þið?“ segir Sverrir og hlær.

„Ég hafði alltaf svo gaman af stærðfræði þegar ég var í skóla, ég veit ekkert af hverju, ég er bara þannig gerður, fannst þetta bara geggjað. Mér fannst þetta eins og að vera í gestaþraut, eins og að hanga í sudoku allan daginn,“ segir hann.

Heldur áfram að syngja

Sverrir segir lykilinn að því að vera góður stærðfræðikennari felast í því að hafa góða þolinmæði og að átta sig á aðstæðum.

Hann segir kennsluna ekki munu hafa áhrif á tónlistarferilinn enda sé hann aðeins í fimmtíu prósent starfi sem kennari.

Sverrir Bergmann og Halldór Gunnarsson.
Sverrir Bergmann og Halldór Gunnarsson. Ljósmynd/Guðmundur Lúðvíksson

„Auðvitað heldur maður áfram að syngja og gerir það af fullum krafti, jafnvel bæti í ef eitthvað er,“ segir hann en Sverrir gaf einmitt út nýtt lag á dögunum sem ber nafnið „Ég man“.

„Það fjallar um að ég var eitthvað lítill í mér og fór að hugsa heim, heim á Krókinn, í Skagafjörð,“ segir hann.

Viðtalið við Sverri má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is