Selur pítsur með því að slaka þeim niður af annarri hæð

Ljósmynd: Instagram/Skjáskot

27 ára gamall nemandi í Fíladelfíuríki í Bandaríkjunum hefur vakið mikla athygli fyrir pítsubakstur. Nemandinn heitir Ben Berman og byrjaði hann fyrst að baka pítsur til þess að halda sambandi við vini sína þegar heimsfaraldurinn byrjaði.

Hann slakaði til þeirra pítsusneiðum í kassa út um gluggann á íbúð sinni, sem er á annarri hæð.

Nú, mörgum mánuðum seinna, hefur þetta áhugamál hans þróast í óhagnaðardrifið góðgerðarfélag og með pítsusölunni hefur hann safnað tæpum fjórum milljónum íslenskra króna til þess að leggja sitt af mörkum gegn matarskorti og heimilisleysi í Fíladelfíu.

Pítsufyrirtækið fékk nafnið Good Pizza, eða Góð pítsa, og segir Berman þetta hafa verið leið fyrir sig til þess að gefa til baka á mjög erfiðu ári.

Ástríða Bermans fyrir eldamennsku er frá móður hans Kerri, sem er frábær kokkur. Berman er alinn upp í Portland og ólst upp við mikilvægi þess að deila mat með öðrum. Hann hefur unnið í eldhúsum á ýmsum veitingastöðum í hverfinu sínu og árið 2012 stofnaði hann hamborgaramatarvagn.

Í mars síðastliðnum ætlaði Berman að halda matarboð fyrir vini en þar sem Covid-faraldurinn var byrjaður að gera vart við sig ákvað hann að hætta við. Hann vildi þó að vinirnir gætu notið matargerðar sinnar og datt því í hug að gefa þeim pítsu á öruggan hátt, í góðri fjarlægð.

Í upphafi var tilgangur hans aðeins að fá vini sína til þess að brosa og borða góðan mat en það vatt fljótt upp á sig, sem fékk enn fleiri til þess að njóta. Hann ætlar sér að þróa verkefnið enn lengra, leggur mikinn metnað í góðgerðarfélag sitt og vonast til að safna sem mestum peningum fyrir þetta mikilvæga málefni.

Berman segir mjög skemmtilegt að sjá viðbrögð fólks við þessu og spennandi að fá að skapa í íbúðinni sinni. Hver einasta króna fer til góðgerðarmálefnisins og á sama tíma geta margir notið þess að borða góða pítsu. Frábært framtak!

Frétt frá Today. mbl.is

#taktubetrimyndir