Sá liti í fyrsta skiptið áttræður

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ljósmynd: Unsplash/Mykyta Martynenko

Lífið er svo sannarlega litríkt og fjölbreytt og mörg okkar búa yfir þeim ótrúlegu forréttindum að fá að sjá lífið í lit.

Ég rakst á ótrúlega fallegt tiktokmyndband á dögunum þar sem barnabarn deilir stuttu myndskeiði af afa sínum, sem fagnaði 80 ára afmæli sínu með nánustu fjölskyldu. Afinn hefur verið litblindur alla sína ævi og fjölskyldan ákvað að gefa honum svokölluð litblindugleraugu í afmælisgjöf, sem gera honum kleift að sjá liti.

Afinn var heldur hissa þegar hann opnaði gjöfina og áttaði sig ekki strax á því hvað þetta væri. Hann spurði í gríni hvort þetta væri eitthvað sem myndi gera hann litblindan en bætti svo við „ó, já, ó-litblindan“.

Hann varð þá mjög spenntur og sagðist hafa haldið að hann þyrfti að bíða með að sjá liti þar til hann kæmist til himna.

Eftir að hann setti gleraugun á sig og sá sterka liti í fyrsta skipti var hann yfir sig ánægður og hrifinn; komst loksins að því hvernig grænn litur lítur út og sagði þetta algjörlega magnað. Falleg gjöf og dásamleg upplifun fyrir afann og alla fjölskylduna.mbl.is