Umbreytir laufblöðum í listaverk

Það er ómögulegt að ímynda sér lífið án listar og listin leynist víðsvegar, á ólíklegustu stöðum.

Hinn 29 ára gamli Kanat Nurtazin hefur vakið mikla athygli fyrir laufblaðalist sína, þar sem hann umbreytir laufblöðum yfir í listaverk.

Kanat notast við útskurð til þess að skera listaverk út í laufblöð sem hann finnur og hefur meðal annars skapað ballerínur, flamingófugla og sjálfan Harry Potter. Hann hefur skapað slíka list frá árinu 2013 og hingað til tekist að búa til yfir 500 lauf-listaverk.

Kanat er frá Kasakstan og hefur gaman af því að skapa. Honum datt í hug að nota laufblöð þar sem hann sá fjöldann allan af þeim liggja á götunum og því er þetta mjög vistvæn leið fyrir listsköpun. Hann tekur myndir af hverju og einu listaverki sínu með fjölbreytt umhverfi í bakgrunni sem honum finnst henta hverju sinni.

Upphaflega vöktu verkin athygli á instagramsíðu hans en nú hafa stórfyrirtæki á borð við Nickelodeon og Disney haft samband við hann og beðið hann um hjálp við að búa til efni fyrir sig.

Kanat segir listsköpunina fyrst og fremst áhugamál sem veiti sér gleði, en hefur þó stundum selt uppáhaldsverkin sín á uppboði og sent peninginn til mikilvægra góðgerðarmálefna. Hann segir lauf-listina leið fyrir sig til þess að tjá sig. List fyrir honum getur fært hann á annan stað, í aðra vídd, og gert honum kleift að vera einn með hugsunum sínum og tilfinningum. Staður þar sem hann getur verið fullkomlega hann sjálfur og deilt hugmyndum sínum.

Sum listaverk hans tengjast samfélagslegum vandamálum og Kanat reynir að tjá sig um þau með hjálp listarinnar. Ótrúlega skemmtilegur listamaður og listinni eru greinilega engin takmörk sett!

Frétt frá Goodnewsnetwork.

 

mbl.is